Innlent

Þorsteinn segir yfirlýsingu Höskuldar minna hann á neyðarlegt atvik í Alþingishúsinu

Birgir Olgeirsson skrifar
Höskuldur Þórhallsson og Þorsteinn Sæmundsson.
Höskuldur Þórhallsson og Þorsteinn Sæmundsson.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir yfirlýsingu flokksbróður síns, Höskuldar Þórhallssonar, um orð formanns flokksins minna hann á þegar Höskuldur steig óvænt fram á tröppum í Alþingishúsinu í vor og kynnti öllum að óvörum samkomulag ríkisstjórnarflokkanna. 

Þetta sagði Þorsteinn í síðdegisútvarpi Rásar 2 en Höskuldur ritaði í dag á Facebook að orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um að ekki liggi á að halda þingkosningar í haust, séu til þess eins fallin að koma í veg fyrir þá mikilvægu vinnu sem fram undan er í þinginu og setja þar allt í upplausn.

„Slíkt myndi einnig sprengja ríkisstjórnina og þar með færu mörg mál í súginn,“skrifaði Höskuldur.

Þorsteinn sagði í síðdegisútvarpi Rásar 2 að þessi skrif Höskuldar væru klaufaleg og sagðist ekki vita til þess að aðrir þingmenn Framsóknarflokksins séu honum sammála. Þorsteinn sagði klárt að kosið verði í haust að því gefnu að ákveðin mál ríkisstjórnarinnar verði kláruð, það sé skilningur hans, forsætisráðherrans Sigurðar Inga Jóhannssonar og formanns flokksins Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Sigurður Ingi sagði við Ríkisútvarpið fyrr í dag að kosið verði í haust að því gefnu að málefni ríkisstjórnarinnar verði sett í öndvegi og þau kláruð.

Sigurður Ingi sagði þau mál sem stjórnarflokkarnir vilji leggja áherslu á séu meðal annars afnám hafta á einstaklinga og fyrirtæki, húsnæðismál og samspil séreignasparnaðar og verðtryggðra og óverðtryggðra lána. Þar að auki liggi fyrir þrjár tillögur að breytingum á stjórnarskrá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×