Sport

Engir Pokémonar í Ólympíuþorpinu: „Að öðru leyti er þetta magnað“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pikachu og félagar verða ekki í Ríó að horfa á Ólympíuleikana.
Pikachu og félagar verða ekki í Ríó að horfa á Ólympíuleikana. vísir/getty/nintendo
Eins og kom fram á Vísi fyrr í vikunni eru Ólympíuliðin ekki sátt með aðstæður í Ólympíuþorpinu þar sem íþróttamennirnir, þjálfarar og fararstjórar munu gista á meðan leikunum stendur í Ríó.

Ástralar eru sérstaklega óánægðir og segja klósettin stífluð í íbúðum íþróttamannanna og þá leka pípur og berir rafmagnsvírar sjást hér og þar.

Borgarstjóranum í Ríó var ekkert skemmt yfir þessu „væli“ Ástrala og sagði ekki bara að Ólympíuþorp Brasilíumanna væri fallegra en þorpið í Sydney árið 2000, heldur ætlaði hann að setja kengúru fyrir utan hjá þeim svo liði eins og heima hjá sér.

Bandaríska dýfingakonan Abby Johnston, sem vann til silfurverðlauna í samhæfðum dýfingum af þriggja metra palli í London fyrir fjórum árum, er líka ósátt en hennar vandamál tengist ekki húsnæðinu í þorpinu.

Johnston er bara brjáluð yfir því að hún getur ekki veitt Pokémona í Ólympíuþorpinu og segir á Twitter-síðu sinni: „Viljið þið vita hvað er það versta við Ólympíuþorpið? Ekkert Pokémon Go. Að öðru leyti er þetta magnað.“

Þó Brasilíumenn og mótshaldarar í Ríó þurfi, að því virðist, að hysja upp um sig brækurnar þegar kemur að húsasmíðinni er ekki hægt að kenna þeim um Pokémon-leysið í þorpinu.

Brasilía er nefnilega eitt þeirra landa sem getur ekki enn náð í Pokémon Go smáforritið. Kannski drífur Nintendo sig í að opna það fyrir brasilískan markað þar sem Ólympíuleikarnir hefjast í Ríó 5. ágúst. Eitthvað þurfa íþróttamennirnir nú að gera í frítíma sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×