Innlent

Píratar stærri en Sjálfstæðisflokkurinn á ný og Viðreisn stækkar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fylgi Pírata eykst.
Fylgi Pírata eykst. vísir/stefán
Píratar mælast stærri en Sjálfstæðisflokkurinn á nýjan leik í nýrri könnun MMR á fylgi flokkanna. Þá skreppur fylgi Vinstri grænna saman.

Píratar mælast nú með tæp 27 prósent samanborið við 24,3 prósent í síðustu könnun. Sú könnun var birt 4. júlí. Þá var Sjálfstæðisflokkurinn með 25,3 prósent en er með prósentustigi minna nú.

Vinstri græn eru enn þriðja stærsta stjórnmálaaflið en hreyfingin mælist með tæp þrettán prósent nú samanborið við átján prósent síðast.

Viðreisn mælist stærri en bæði Samfylking og Framsókn. Hið nýja afl er með 9,4 prósent fylgi og bætir við sig. Áður mældist það með 6,7 prósent. Framsókn og Samfylking eru bæði með rúm átta prósent.

Björt framtíð tekur kipp og bætir við sig prósentustigi, mælist nú með tæp fjögur prósent. K-listi Sturlu Jónssonar mælis með 1,8 prósent sem er svipað og síðast. Þá er Dögun með 1,2 prósent. Önnur framboð mælast með minna fylgi.

Könnunin var framkvæmd dagana 15. til 22. júlí. Heildarfjöldi svarenda var 906 einstaklingar á aldrinum átján ára og eldri. Vikmörk í könnuninni geta verið allt að 3,1 prósentustig í aðra hvora áttina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×