Erlent

Þjóðaröryggisráðgjafar innan Repúblikanaflokksins vara við Donald Trump

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins.
Donald Trump forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. vísir/epa
Fimmtíu þjóðaröryggisráðgjafar innan vébanda Repúblikanaflokksins hafa varað við að forsetaframbjóðandinn Donald Trump verði gáleysislegasti forsetinn í sögu landsins, nái hann kjöri.

Sérfræðingarnir viðra skoðun sína í opnu bréfi þar sem þeir segja Trump skorta skapgerð, gildi og reynslu til að gegna embættinu en á meðal þeirra sem rita undir bréfið eru Michael Hayden, fyrrverandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA.

Fjölmargir þeirra sem skrifa undir bréfið neituðu að skrifa undir sambærilegt bréf í marsmánuði, en þeir segjast í bréfinu ekki ætla að kjósa Trump.

Bréfið birtist skömmu eftir að fjöldi hátt settra manna innan Repúblikanaflokksins hafa afneitað Trump og stefnu hans.

Trump hefur verið gagnrýndur innan flokksins fyrir að tala gegn mörgum þeim þáttum sem einkennt hafa utanríkisstefnu Repúblikanaflokksins, meðal annars þegar kemur að þátttöku Bandaríkjanna innan NATO, auk þess að hann hefur varið beitingu pyntinga og hvatt Suður-Kóreumenn og Japani til að koma sér upp kjarnavopnabúri.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×