Sport

Eygló Ósk komst ekki í úrslit en hækkaði sig um tvö sæti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir eftir undanúrslitasundið.
Eygló Ósk Gústafsdóttir eftir undanúrslitasundið. vísir/anton
Eygló Ósk Gústafsdóttir endaði í 7. sæti í sínum riðli í undanúrslitum í 100 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Ríó í nótt.

Eygló Ósk synti á 1:00,65 og bætti tíma sinn frá undanrásunum um 24 hundraðshluta úr sekúndu.

Þessi tími nægði Eygló þó ekki til að komast í átta manna úrslit. Síðasta sundkonan inn í úrslitin synti á 59.35 sekúndum en Eygló hefur aldrei synt undir einni mínútu.

Eygló var 1.81 sekúndu á eftir besta tímanum en honum náði bandaríska stúlkan Kathleen Baker. Danska sundkonan Mie Nielsen komst í úrslitin og verður fulltrúi Norðurlanda þar. Seinni riðillinn var hraðari og þaðan komu þrír hröðustu tímarnir.

Eygló endaði í 14. sæti og hækkaði sig um tvö sæti frá undanrásunum. Þetta er annar besti árangur íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikum frá upphafi því Hrafnhildur Lúthersdóttir komst í úrslitin í 100 metra bringusundi fyrr í kvöld.

Eygló Ósk hefur þó ekki lokið leik á Ólympíuleikunum en hún keppir í 200 metra baksundi, sinni sterkustu grein, á fimmtudaginn.


Tengdar fréttir

Eygló Ósk: Ég fæ gæsahúð að hugsa um þetta

Eygló Ósk Gústafsdóttir, Íþróttamaður ársins 2015, keppir í sinni fyrstu grein á Ólympíuleikunum í Ríó í dag. Framundan hjá henni er 100 metra baksund og verður hún annar Íslendingur sem keppir á leikunum á eftir Antoni Svein Mckee.

Eygló Ósk komin áfram í undanúrslit

Eygló Ósk Gústafsdóttir syndir aftur í nótt eftir að hafa tryggt sér sæti í undanúrslitunum í 100 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Ríó.

Hrafnhildur komin í úrslit

Hrafnhildur Lúthersdóttir komst nú rétt í þessu í úrslit í 100 metra bringusundi á Ólympíuleikunum í Ríó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×