Sport

Læknirinn kom með víkingaklappið til Ríó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingaklappið var tekið í Ólympíuþorpinu í gær.
Víkingaklappið var tekið í Ólympíuþorpinu í gær. Vísir/Anton
Það er alltaf von á víkingaklappinu þessa dagana þegar fleiri en þrír Íslendingar koma saman og svo var einnig raunin í gærkvöldi þegar íslenska Ólympíuliðið var boðið formlega velkomið í Ólympíuþorpið.

Eftir hina formlegu athöfn þar sem fáninn var dreginn að húni og þjóðsöngurinn spilaður þá buðu heimamenn upp í mikla sambaveislu. Íslenski hópurinn var duglegri að dansa en flestir úr hinum þjóðunum sem voru boðin velkomin í gær.

Eftir sambadansinn var síðan myndataka þar sem íslensku Ólympíufararnir, bæði keppendur, þjálfarar, fararstjórar og ÍSÍ-fólk, var myndað í bak og fyrir. Skemmtileg stund og vel þess virði að mynda vel.

Þegar allar myndatökur voru að baki og allt leit út fyrir að íslenski hópurinn væri búinn að segja þetta gott þá ætti læknir liðsins, Örnólfur Valdimarsson ás upp í erminni.

Örnólfur stökk fram og skellti í eitt víkingaklapp. Íslenski hópurinn tók vel undir en þessi frá Papúa Nýja-Gínea, Lúxemborg og Suður-Súdan voru kannski ekki alveg með á nótunum.

Víkingaklappið sló í gegn á Evrópumótinu í fótbolta í Frakklandi fyrr í sumar og hefur sést við önnur tækifæri ekki síst þegar íslenskir íþróttamenn koma saman.

Örnólfur vildi greinilega gera sitt til að halda hinu íslenska húh-i í tísku. Hvort við sjáum eitthvað meira af því á Ólympíuleikunum í Ríó verður tíminn að leiða í ljós.

Setningarathöfn Ólympíuleikanna í Ríó verður í beinni útsendingu á Vísi frá klukkan 23.00.


Tengdar fréttir

Með sambataktinn í sundlaugina

Íslenski Ólympíuhópurinn var boðinn formlega velkominn í Ólympíuþorpið í gærkvöldi með fjölmennum sambadansi og klassískri Ríó-stemmningu

Íslenskar íþróttakonur í meirihluta í fyrsta sinn á ÓL

Fimm konur skipa átta manna Ólympíulið Íslands í Ríó. Þetta er í fyrsta sinn í keppnissögu Íslendinga á sumarólympíuleikum þar sem konur eru í meirihluta. Leikarnir í Ríó eru því þegar orðnir sögulegir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×