Enski boltinn

Svona yrði ekki komið fram við leikmenn hjá Bayern

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bastian Schweinsteiger.
Bastian Schweinsteiger. vísir/getty
Karl-Heinz Rummenigge, forseti Bayern München, er ekki ánægður með hvernig Manchester United hefur komið fram við hinn þýska Bastian Schweinsteiger.

Samkvæmt fréttum enskra miðla mun Schweinsteiger þurfa að æfa með varaliði United þessa dagana þar sem að nýr stjóri United, Jose Mourinho, telur sig ekki hafa not fyrir hinn 32 ára Schweinsteiger sem kom frá Bayern fyrir ári síðan.

Schweinsteiger var til að mynda ekki í 22 leikmannahópi United í góðgerðarleik Wayne Rooney í gær og segir Rummenigge að þessi framkoma sé ekki til fyrirmyndar.

„Ég bara trúiði þessu ekki. Það verða nokkrir leikmenn sem munu hugsa sig vandlega um áður en þeir fara til svona félags. Ekkert þessu líkt hefur nokkru sinni átt sér stað hjá Bayern München,“ sagði Rummenigge.

Schweinsteiger tilkynnti eftir EM í sumar að hann hefði leikið sinn síðasta landsleik en hann lék allan sinn atvinnumannaferil með Bayern þar til að hann fór til Englands fyrir ári síðan. Hann á enn tvö ár eftir af núverandi samningi sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×