Handbolti

Tveir íslenskir þjálfarar í undanúrslitunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Guðmundar voru frábærir í seinni hálfleik gegn Slóvenum.
Strákarnir hans Guðmundar voru frábærir í seinni hálfleik gegn Slóvenum. vísir/anton
Guðmundur Guðmundsson er komin með danska handboltalandsliðið í undanúrslit á Ólympíuleikunum í Ríó eftir öruggan sjö marka sigur, 37-30, á Slóveníu í kvöld.

Helmingur þjálfaranna í undanúrslitunum karlamegin eru því Íslendingar en fyrr í dag komust lærisveinar Dags Sigurðssonar í þýska landsliðinu í undanúrslit eftir stórsigur á Katar, 34-22.

Svo gæti farið að Guðmundur og Dagur mættust í úrslitaleiknum á sunnudaginn. Þjóðverjar mæta Ólympíumeisturum Frakka í undanúrslitunum en Danir leika við sigurvegarann úr leik Króatíu og Póllands sem hefst klukkan 23:30.

Fyrri hálfleikur í leiknum í dag var jafn en Danir leiddu með þremur mörkum að honum loknum, 16-13.

Seinni hálfleikurinn var hins vegar eign danska liðsins sem hreinlega keyrði yfir það slóvenska. Danir náðu mest níu marka forskoti en unnu að lokum sjö marka sigur, 37-30.

Lasse Svan Hansen og Mikkel Hansen skoruðu átta mörk hvor fyrir Dani og Morten Olsen bætti sex mörkum við. Sóknarleikur Dana var var mjög góður en þrátt fyrir sjö marka sigur vörðu dönsku markverðirnir aðeins sjö skot í leiknum.

 

Marko Bezjak og Blaz Janc skoruðu báðir sex mörk fyrir Slóvena sem eru úr leik.

Þetta er í annað sinn sem Guðmundur kemur liði í undanúrslit á Ólympíuleikum en hann fór sem kunnugt er með íslenska liðið á úrslit á ÓL í Peking fyrir átta árum.


Tengdar fréttir

Dagur: Þetta var mjög flott

Dagur Sigurðsson er búinn að koma Evrópumeistaraliði Þýskalands í undaúrslit á Ólympíuleikunum í Ríó en Þjóðverjar unnu tólf marka sigur á Katar, 34-22, í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×