Varnarmálaráðuneyti Rússlands tilkynnti í dag að gerðar hefðu verið loftárásir í Sýrlandi frá herstöð í Íran. Þetta er í fyrsta sinn sem Rússar gera árásir frá Íran síðan þeir hófu aðgerðir sínar í Sýrlandi í fyrra. Íranar hafa veitt stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, gífurlegan stuðning í átökunum þar í landi sem staðið hafa yfir frá árinu 2011.
Rússar segjast hafa gert árásir á vopnageymslur, stjórnstöðvar og þjálfunarbúðir. Notkun herstöðvarinnar í Íran gerir flugvélum Rússa kleift að bera fleiri sprengjur en annars, þar sem hún er stödd í mikilli hæð yfir sjávarmáli.
Samkvæmt BBC voru árásir gerðar í Aleppo, Idlib og Deir al-Zour. Heimamenn segja að minnst 19 almennir borgarar hafi fallið í árásunum. Þá er sagt frá því að embættismenn í Rússlandi og Íran hafi á undanförnum mánuðum rætt sín á milli um að auka samstarf ríkjanna í hernaði.
Enn búa um ein og hálf milljón manns í borginni Aleppo og þar af um 250 þúsund á yfirráðasvæði uppreisnarmanna. AFP fréttaveitan segir að Sameinuðu þjóðirnar óttist um öryggi íbúa borgarinnar. Kallað hefur verið eftir því að þeim verði komið til hjálpar eins fljótt og auðið er.

