Sport

Skriðsundsdrottningin Ledecky stórbætti eigið heimsmet

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Katie Ledecky bregst við heimsmeti sínu í nótt.
Katie Ledecky bregst við heimsmeti sínu í nótt. Vísir/Getty
Katie Ledecky er óumdeilanlega skriðsundsdrottning Ólympíuleikanna í Ríó eftir magnaðan árangur hennar á leikunum, nú síðast í nótt.

Þá vann hún fjórðu gullverðlaun sín á leikunum og fimmtu verðlaunin alls er hún vann algjöran yfirburðasigur í 800 m skriðsundi.

Hún kom í mark á 8:04,79 mínútum og bætti heimsmetið sitt um rúmar tvær sekúndur. Hún var tólf sekúndum á undan Jazmin Carlin, sem vann silfur, í greininni. Sannarlega ótrúlegir yfirburðir.

Ledecky vann gull í sömu grein á leikunum í Lundúnum fyrir fjórum árum en fyrir leikana í Ríó voru það einu verðlaun hennar á Ólympíuleikum.

Þau eru nú orðin sex talsins en hún hafði einnig unnið gull í 200 og 400 m skriðsundi, sem og gull í 4x200 m skriðsundi með boðsundssveit Bandaríkjanna og silfur í 4x100 m skriðsundi með sömu sveit.

Ledecky er aðeins önnur konan frá upphafi sem vinnur gull í 200, 400 og 800 m skriðsundi á sömu leikunum.

En yfirburðir hennar í 800 m skriðsundi eru með ólíkindum. Hún á þrettán bestu tíma sögunnar og til samanburðar má nefna að þegar Becky Adlington frá Bretlandi bætti heimsmetið í greininni á leikunum í Peking árið 2008 synti hún á rúmum þrettán sekúndum lakari tíma en Ledecky gerði í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×