Innlent

Í framboði fastur á spítala

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Friðrik Guðmundsson er kominn í framboð fyrir Pírata.
Friðrik Guðmundsson er kominn í framboð fyrir Pírata. vísir/vilhelm
Friðrik Guðmundsson dvelur enn á lungnadeild Landspítalans í Fossvogi gegn vilja sínum. Hann býr á sambýli í Reykjanesbæ ásamt bróður sínum og þriðja manni en hefur verið vistaður á spítalanum frá 27. mars. Bræðurnir eru með sjaldgæfan erfðasjúkdóm, DMD, sem leggst á alla vöðva líkamans og ágerist með aldrinum.

Friðrik var fluttur á gjörgæslu Landspítalans eftir að hafa farið í hjartastopp á sambýlinu. Síðan hefur hann legið á lungnadeildinni vegna úrræðaleysis á sambýlinu en það verður seint sagt að hann sé aðgerðalaus þar. Hann hefur ákveðið að gefa á sér kost í framboði í prófkjöri Pírata í Suðurkjördæmi sem lýkur þann 12. ágúst. Hann vill breytingar og ætlar sér að berjast fyrir málefnum fatlaðra, heilbrigðiskerfinu, atvinnumálum og málefnum innflytjenda. „Ég hef verið að fá manneskju frá Rauða krossinum sem fer með mér á kaffihús, Píratafundi eða bara eitthvert út að gera eitthvað,“ segir Friðrik.

Hann segir búið að ráða starfsfólk í stöður á sambýlinu og því sé útlit fyrir að hann fái að fara á sambýlið í september. „Nú á bara að koma fólkinu í þjálfun uppi á spítala og heima næstu vikur og líka koma gamla starfsfólkinu inn í mín mál aftur og í þjálfun, ég kemst ekkert heim fyrr en 1. september rétt fyrir Ljósanótt og þá verður sko „homecoming party“,“ segir Friðrik.

Hann segist mikill baráttumaður. „Ég er Pírati af því að ég vil berjast fyrir þá sem minna mega sín og hafa ekki endilega sterka rödd,“ segir Friðrik.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×