Sport

Hrafnhildur aftur í undanúrslit | Sjáðu sundið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir heldur áfram að standa sig vel á Ólympíuleikunum í Ríó en hún er komin í undanúrslit í 200 metra bringusundinu eftir að hafa náð 10. sæti í undanrásunum.

Hrafnhildur Lúthersdóttir kom í mark á tímanum 2:24.43 mínútum en Íslandsmet hennar frá því í maí er 2:22,96 mín.

Þetta er önnur greinin á mótinu þar sem Hrafnhildur kemst áfram í undanúslit en Hrafnhildur varð í sjötta sæti í 100 metra bringusundi sem er besti árangur íslenskrar konu á ÓL frá upphafi.

Hrafnhildur skrifaði líka söguna í þessu sundi í dag því hún er fyrsta íslenska konan til þess að komast í undanúrslit í tveimur greinum á Ólympíuleikum.

200 metra bringusundið á að vera besta grein Hrafnhildar Lúthersdóttur en hún hefur einnig náð frábærum og sögulegum árangri í 100 metra bringusundi upp á síðkastið.

Hrafnhildur varð í 28. sæti í 200 metra bringusundinu á Ólympíuleikunum í London fyrir fjórum árum en hún varð síðan í 9. sæti á HM í Kazan fyrir ári síðan og vann bronsverðlaun í 200 metra bringusundinu á EM í London í maí.

Hrafnhildur syndir undanúrslitasund í nótt en það fer ekki fram fyrr en eftir klukkan tvö að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×