Menning

Gamalt og nýtt. Af leikritum, löstum og lofi

Sigríður Jónsdóttir skrifar
Helgi magri var frumsýndur norður á Akureyri á föstudagskvöldið.
Helgi magri var frumsýndur norður á Akureyri á föstudagskvöldið.
Loksins er komið haust og nýtt leikár hafið. Síðustu tvær vikurnar hafa leikhúsin í höfuðborginni keppst um að auglýsa dagskrá sína og margt spennandi bíður áhorfenda á komandi mánuðum. Vert er að virða leikárið fyrir sér, þá sérstaklega sýningarnar fyrri hluta þess.

Fyrsta verk Þjóðleikhússins á þessu leikári er reyndar verkefni frá hinu síðara en loksins verður Djöflaeyjan frumsýnd. Leikgerðin er ný, eftir Atla Rafn Sigurðarson, sem einnig leikstýrir í samvinnu við Baltasar Kormák og Melkorku Teklu Ólafsdóttur. Leikhópurinn allur er reyndar skrifaður fyrir verkinu og stór hópur kemur að tónlistinni þar sem Bragi Valdimar Skúlason og Memfismafían eru fremst í flokki.

Bjarni Haukur Þórsson er mættur til landsins með einleikinn Maður sem heitir Ove, byggðan á hinni sívinsælu bók eftir Fredrik Backman, í farteskinu. Sigurður Sigurjónsson leikur hinn geðstirða Ove og áhugavert verður að sjá hvernig þeir útfæra verkið, hugmyndin virðist í traustum höndum.

Í Borgarleikhúsinu byrjar leikárið með frumsýningu á nýju íslensku leikriti: Sendingu eftir Bjarna Jónsson, í leikstjórn Mörtu Nordal. Með aðalhlutverk fara Þorsteinn Bachmann, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Elma Stefanía Ágústsdóttir en undarlegt er að sú síðastnefnda fái ekki fleiri burðarhlutverk á leikárinu.

Tjarnarbíó byrjar sitt leikár með hinni ágætu sýningu Stripp, samstarfsverkefni Dance for Me og Olgu Sonju Thorarensen. Sóley Rós ræstitæknir tekur síðan á móti leikhúsgestum en María Reyndal og Sólveig Guðmundsdóttir standa að baki sýningunni sem fjallar um lífshlaup alþýðukonu. Trúðarnir Pétur, Tómas, Brynhildur og Sigfús taka Helga magra fyrir í fyrstu leiksýningu Menningarfélags Akureyrar á leikárinu en listrænir stjórnendur eru Jón Páll Eyjólfsson og Þóroddur Ingvarsson.

Sviðslistahópurinn Dance for Me í samstarfi við Olgu Sonju Thorarensen með sýninguna Stripp, markar upphaf leikársins í Tjarnarbíói.
Lokkandi leikhús

Leikstjórinn Una Þorleifsdóttir og leikarinn Stefán Hallur Stefánsson halda samstarfi sínu áfram með einleiknum Ég vil frekar að Goya haldi fyrir mér vöku en einhver djöfulsins fáviti eftir argentínska höfundinn Rodrígó García. Það er hressandi þegar listafólk leitar á ný mið í leikritavali sínu en Una leikstýrði einmitt nýju skandinavísku verki á síðasta ári sem vakti mikla lukku.

Ragnheiður Skúladóttir fær sitt fyrsta leikstjórnarverkefni innan Borgarleikhússins og mun leikstýra Extravaganza eftir Sölku Guðmundsdóttur, sem starfar nú sem leikskáld hússins. Þarna er eftirtektarverð samvinna á ferð og vonandi verður sýningin eftir því.

Forvitnilegasta sýning MAk að hausti er aftur á móti heimildarleikritið Elska þar sem ástarsögur Norðlendinga eru sviðsettar í leikstjórn Agnesar Wild sem sýndi hina ágætu Kate í Tjarnarbíói í fyrra. Þarna er metnaðarfull tilraun á ferð þar sem sögur úr byggðarlaginu fá að blómstra.

Sviðslistahópurinn Lab Loki snýr aftur með sýninguna Endastöð – upphaf í Tjarnarbíó með vorinu en leikstjórinn Rúnar Guðbrandsson og leikarinn Árni Pétur Guðjónsson eru þar í framlínu. Þetta er fyrsta sýning hópsins í fimm ár og vert að hlakka rækilega til enda var Svikarinn einstaklega gott leikhús.

Fortíðin föndruð og endurunnin

En þrátt fyrir áhugaverð verk eru leikárin heldur kunnugleg. Stóru leikhúsin í höfuðborginni verða að stækka sjóndeildarhringinn og taka oftar áhættu í verkefnavali. Úti að aka eftir Ray Cooney er gott og blessað en aðrir farsar eftir aðra höfunda eru í boði. Auðvitað er mikilvægt að sýna verk eftir William Shakespeare reglulega en hvernig væri að skoða Christopher Marlowe eða franska snillinginn Moliére? Horft frá brúnni eftir Arthur Miller í leikstjórn Stefans Metz er vissulega spennandi sýning með flottum leikhóp en svo virðist sem Þjóðleikhúsið sé aftur að leita í öruggan faðm Millers, Eldraunin eftir sama höfund sló einmitt eftirminnilega í gegn fyrir stuttu.

Nánast engin samvinnuverkefni verða undir þaki Þjóðleikhússins í vetur, fyrir utan samstarf hússins við Vesturport. Áhugavert væri að vita ástæðu þess. Tjarnarbíó hefur verið að sækja í sig veðrið á síðustu misserum sem heimili sjálfstæðu sviðslistasenunnar en hefur stundum liðið fyrir mikinn gæðamun á verkefnum. Friðrik Friðriksson hefur tekið við af Guðmundi Inga Þorvaldssyni og vonandi mun Tjarnarbíó vaxa undir hans leiðsögn.

Menningarfélag Akureyrar er merkileg tilraun sem fór af stað með fullum þunga á síðasta leikári. Hugmyndin um að samnýta stjórnun og fjármuni er kannski hugvitsamleg en sú hugsun læðist að manni að þetta sé ekki að gera Leikfélagi Akureyrar gott. LA er eitt rótgrónasta leikfélag landsins og Jón Páll Eyjólfsson er öflugur sviðslistamaður en hættan er á að MAk veiki stöðu þeirra beggja. En góðir hlutir gerast hægt og öflugt sviðslistasamfélag sprettur ekki fram á einni nóttu.

Tilefni er til að hafa áhyggjur af framtíð íslenskrar leikritunar eins og staðan er í dag. Ekki vegna þess að skortur sé á fínum íslenskum leikskáldum, af þeim er nóg, heldur virðist vandinn frekar liggja í skorti á stuðningi stóru leikhúsanna. Borgarleikhúsið hefur þó staðið sig betur en bæði húsin líða fyrir mikla áherslu á leikgerðir. Þessar endalausu leikgerðir eru góðar til síns brúks, bæði hafa þær markaðsfræðilegan grundvöll sem kassastykki fyrir húsin og minni þörf á kynningu en aldrei koma þær í stað nýrra leikverka. Leikhúsin eiga að kynna nýja hluti fyrir áhorfendum, ný leikskáld og nýjar nálganir, ekki stóla alltaf á kunnuglegar og vinsælar bækur eða kvikmyndir sem flestir þekkja. Áherslunum verður að breyta, hið fyrsta, áður en það verður of seint. Útgáfumál leikhandrita verður líka að taka í gegn, sem og leikskrár.

Söngleikurinn Djöflaeyjan var fyrsta frumsýning leikársins í Þjóðleikhúsinu.
Okkar yngstu leikhúsgestir

Yngstu leikhúsgestirnir fá sem betur fer eitthvað fyrir sinn snúð á þessu leikári. Brúðuleikhússýningin Íslenski fíllinn kemur sterk inn strax með haustinu og Lofthræddi örninn Örvar leggur land undir vængi en þjóðleikhússtjóri efnir nú loforð sitt um að sinna landsbyggðinni betur. Frumsamda barnaleikritið Fjarskaland verður síðan frumsýnt í janúar, allt mjög jákvætt.

Borgarleikhúsið leitar til Bergs Þórs Ingólfssonar til að koma bæði Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason á svið og einnig einleiknum Jólaflækjunni eftir hann sjálfan. Allar líkur eru á því að sýningarnar verði báðar vel heppnaðar. Hann hefur sýnt á síðustu árum að hann er einn traustasti leikstjóri landsins. Borgarleikhúsið hefur stofnað leiklistarskóla fyrir grunnskólabörn undir stjórn Vigdísar Másdóttur. Einstaklega frambærileg hugmynd sem stækkar sviðslistaflóru höfuðborgarinnar enn frekar.

MAk virðist ætla að einbeita sér sérstaklega að yngstu áhorfendunum og frumsýna fjórar barnasýningar en sú stærsta er Núna og Júnía undir stjórn Söru Martí Guðmundsdóttur en hún og Sigrún Huld Skúladóttir skrifa verkið. Píla pína stökk fram á sjónarsviðið með þeirra hjálp og vonandi verður þessi sýning enn betri.

Klassísk jól

Ingvar E. Sigurðsson snýr aftur á stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu og tekst á við aðalhlutverkið í Óþelló, í splunkunýrri þýðingu eftir Hallgrím Helgason og leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar. Óþelló er ansi snúið verk í uppsetningu á Íslandi og Vesturport hefur ákveðið að snúa upp á hefðina. Nú leikur kona, Nína Dögg Filippusdóttir, hinn skuggalega Jagó og Aldís Amah Hamilton, nýútskrifuð frá Listaháskóla Íslands, leikur Desdemónu.

Útfærsla Yönu Ross á Mávinum í Borgarleikhúsinu vakti mikla lukku á síðasta leikári en hún fær nú Sölku Völku eftir Halldór Laxness í sínar hendur og er treyst til að stjórna höfuðsýningu leikársins þar í húsi. Þær Yana og Salka Guðmundsdóttir eru skrifaðar fyrir leikgerðinni en Þuríður Blær Jóhannsdóttir, ein frambærilegasta unga leikkona landsins, mun leika þennan kvenskörung. Ólafur Darri Ólafsson snýr aftur í sýningunni og leikhópurinn samanstendur af okkar allra bestu leikurum.

Sending er nýtt íslenskt verk í Borgarleikhúsinu.
Allir í leikhús (og bíó)

Svo sannarlega er ástæða til þess að hvetja landsmenn til að leggja við hlustir því að Útvarpsleikhúsið sinnir íslenskri leikritun af alúð og uppsker eftir því. Það er því sérstakt gleðiefni að Sek eftir Hrafnhildi Hagalín var nýlega tilnefnt til evrópsku ljósvakamiðlaverðlaunanna, Prix Europa.

Bíó Paradís má alls ekki gleyma sem heldur áfram að sýna erlendar leiksýningar á hvíta tjaldinu. Þetta er algjörlega ómissandi viðbót við leikhúsmenningu landans sem alltof fáir nýta. Nú um helgina eru síðustu sýningar á Ríkharði þriðja með Ralph Fiennes og Vanessu Redgrave í aðalhlutverkum sem Almeida-leikhúsið í London setti upp á liðnu sumri.

Íslendingar eru þjóða duglegastir að fara í leikhús en líkt og með verkefnaval stóru húsanna þá má minna leikhúsgesti á að taka oftar áhættu. Þeim mun fleiri sýningar sem landsmenn fjölmenna á, þeim mun meira svigrúm hafa stjórnendur húsanna til að búa til metnaðarfullar og ögrandi sýningar. Áhorfendur verða að taka virkan þátt í leikhúslífinu, ekki aðeins með því að mæta á sýningar heldur einnig með lifandi umræðu um hlutverk og tilgang leikhússins.

Gleðilegt nýtt leikár!

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×