Innlent

Segir að verið sé að hafa kosningarétt af landsmönnum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. vísir/stefán
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, beindi fyrirspurn sinni til forseta Alþingis á þingfundi í dag. 

„Ég vil inna forseta eftir því hverju sæti að tillaga um þingrof og nýjar kosningar sé ekki komin á dagskrá,“ sagði Steingrímur meðal annars.

Hann benti á að samkvæmt 57. grein laga um kosningar segir að „kosningu utan kjörfundar skal hefja svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, þó eigi fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Eftir þann tíma og til kjördags á kjósandi rétt á að greiða atkvæði utan kjörfundar. Atkvæðið telst greitt þann dag sem fylgibréfið er dagsett.“

Í fyrirspurn Steingríms kom fram að nú eru fjörutíu dagar í þann dag sem hefur verið nefndur sem kjördag, þann 29. október. Lög um kosningar gera ráð fyrir 56 dögum fyrir atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Steingrímur spurði Einar K. Guðfinnsson, forseta Alþingis, hvort að forsætisráðherra eða stjórnvöld hefðu ekki gefið sig fram við forseta að þingrofstillaga væri á leiðinni.

Vidi Steingrímur meina að með þessum töfum væri verið að hafa kosningarétt af þeim landsmönnum sem gera þurfi ráðstafanir fyrir utankjörfundaratkvæði. Nefndi hann þar sjómenn sem væru á leið í langa vinnutúra og Íslendinga sem búsettir eru erlendis.

Einar K. Guðfinnsson tók undir orð Steingríms um að nauðsynlegt væri að þingrofstillaga kæmi fram hið allra fyrsta. Hann sagði tillöguna vera í undirbúningi en að ekki væri hægt að greina frá því hvenær tillagan muni líta dagsins ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×