Innlent

„Ótvíræð stuðningsyfirlýsing við Sigmund Davíð úr kjördæminu“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð á Siglufirði.
Sigmundur Davíð á Siglufirði. Vísir/Völundur Jónsson
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræðum við Háskólann á Akureyri segir niðurstöður kjördæmaþings Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi afgerandi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlaut yfirburðarkosningu í efsta sæti listans.

„Þetta er ótvíræð stuðningsyfirlýsing við Sigmund Davíð úr kjördæminu. Það er ekki hægt að segja annað,“ segir Grétar Þór í samtali við Vísi. Bendir hann á að nú hljóti Sigmundur Davíð betri kosningu en árið 2012 þegar hann þegar hann bauð sig fyrst fram í efsta sæti flokksins í kjördæminu. Þá hlaut Sigmundur Davíð tæp 63 prósent atkvæða en nú fékk hann 72 prósent atkvæða.

„Síðast var hann nýr í kjördæminu en núna er hann náttúrulega ekki nýr en engu að síður umdeildari,“ segir Grétar Þór sem segir ljóst að niðurstöðurnar styrki stöðu Sigmundar Davíðs fyrir komandi flokksþing en mjög hefur verið þrýst á Sigurð Inga Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformann flokksins að bjóða sig fram í embætti formann flokksins á flokksþingi flokksins sem haldið verður 1.-2. október.

„Að einhverju leyti styrkir þetta stöðu Sigmundar Davíðs fyrir komandi flokksþing. Hann hefur hins vegar verið langsterkastur í þessu kjördæmi þannig að það er ekki víst að þetta segi allt um hvernig framhaldið verður. Það er ekkert gefið en þetta er sterkari niðurstaða en búist var við,“ segir Grétar Þór.


Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð með yfirburðarkosningu í fyrsta sæti

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fékk 72 prósent greiddra atkvæða í vali Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi á framboðslista flokksins fyrir komandi Alþingiskosningar.

Höskuldur tekur ekki sæti á lista

Höskuldur Þórhallson, þingmaður Framsóknarflokksins, mun ekki taka sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×