Hlynur Bæringsson spilaði sinn 102. landsleik í 84-62 sigri á Kýpverjum fyrir framan 1600 manns í Laugardalshöll í kvöld. Hann var besti maður vallarins með 18 stig og níu fráköst
Leikur liðsins gekk ekki vel framan af en okkar menn leiddu þó í hálleik 42-36.
„Við spiluðum mjög vel í þriðja leikhluta og fram í lok fjórða. Við erum svo óvanir því, margir hverjir á ferlinum, að vera fyrir fram líklegri. En það reddaðist í seinni hálfleiknum,“ sagði Hlynur.
Leikmenn skiptu mínútunum nokkuð vel á milli sín í leiknum í kvöld.
Frábær hittni í kvöld
„Við fengum mikið af bekknum í dag,“ sagði Hlynur. „Við náðum að keyra upp leikinn sem var ástæðan fyrir því að þeir urðu bara þreyttir í seinni hálfleik. Mér fannst þeir ekkert í rosalega góðu formi.“
Hlynur hefur verið að hitta vel fyrir utan þriggja stiga línuna í undankeppninni en vítanýtingin verið verri, reyndar þangað til í kvöld. Sumir hafa haft á orði að Hlynur væri orðinn hittnari fyrir utan þriggja stiga.
„Það er bara alveg rétt, þessa dagana. Það er yfirleitt ekki þannig en í þessari keppni hefur það verið þannig. Eigum við ekki heldur að reyna að halda hinu við og bæta vítin,“ sagði Hlynur sem setti sjö af níu vítum, fimm af sex í málningunni og tvö af þremur þriggja stiga skotum sínum. Nýtingin verður ekki mikið betri.
Stefnir á 200 landsleiki
Guðmundur Bragason afhenti Hlynur gullúr frá KKÍ fyrir leik í tilefni þess að Hlynur rauf 100 landsleikja múrinn. Guðmundur spilaði 169 landsleik þannig að nú munar 67 landsleikjum en Hlynur er á 34. aldursári. Getur hann náð Guðmundi?
„Eiginlega eina spurningin er hvort ég nái 200 eða ekki. Ég held ég eigi eftir að eiga alveg stórleik í 200. landsleiknum. Mig grunar það.“
Hlynur þakkaði áhorfendum frábæran stuðning í kvöld og sagði það virkilega gaman að stemning á leikjum liðsins virðist vera orðin að reglu. Okkar menn mæta Belgum í Höllinni klukkan 16 á laugardaginn.

