Fótbolti

Dagný: Vonandi það sem koma skal í íslenskum kvennafótbolta

Anton Ingi Leifsson skrifar
Dagný í baráttunni.
Dagný í baráttunni. vísir/ernir
Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður Íslands, sagði að það væru blendnar tilfinningar í leikslok, en Ísland tapaði 2-1 fyrir Skotlandi í kvöld. Liðið endaði þó efst í riðlinum og er á leið á EM í Hollandi næsta sumar.

„Þetta er mjög skrýtin tilfinning. Þetta er svekkjandi í dag, en við verðum bara að fara í sturtu og skola þetta af okkur í sturtunni og halda áfram að fagna EM-sætinu,” sagði Dagný í leikslok.

„Ég veit ekki hvað vantaði uppá. Við vorum skrefinu á eftir í fyrri hálfleik í bæði fyrsta og annan bolta og við áttum mjög erfitt með að spila á samherja.”

„Við komum okkur ekkert inn í leikinn fyrr en síðustu tuttugu mínúturnar og það var of seint held ég,” en Ísland fékk á sig fyrsta markið í undankeppninni í leiknum í kvöld. Dagný gerði lítið úr því.

„Það er alltaf svekkjandi að fá á sig mark, en við reyndum að stíga upp. Það tók of langan tíma að finna lausnir á þeirra pressu, en þetta var svekkjandi tap.”

Fanndís Friðriksdóttir jafnaði fyrir Ísland undir lok fyrri hálfleiks, en liðið náði ekki að fylgja eftir fínni frammistöðu í upphafi síðari hálfleiks.

„Við fáum vítið dálítið í andlitið og þetta var ódýrt víti, finnst okkur. Við sköpuðum okkur nokkur hálffæri og við hefðum þurft að gera betur í lokasendingunni og fyrir framan markið,” en saknaði liðið Hörpu Þorsteinsdóttur?

„Harpa er auðvitað frábær leikmaður, en við erum með breiðan hóp og það kemur maður í manns stað. Við eigum að geta dílað við þetta án Hörpu.”

Mætingin var frábær í kvöld og stemningin mjög góð.

„Stemningin var frábær og við erum þakklát fyrir allt fólkið sem kom á völlinn og studdi okkur áfram. Vonandi er þetta það sem koma skal í íslenskum kvennafótbolta og þetta gefur okkur aukakraft, en það var leiðinlegt að geta ekki unnið fyrir framan fólkið,” sagði Dagný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×