
Óútskýrð fjarvera Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, var 136 skipti árið 2013-14 en rúmlega tvöfalt fleiri á næsta þingi, alls 346. Það sem af er þinginu nú hefur hann verið fjarverandi í 618 skipti en þar af 501 sinni á árinu 2016. Hann hefur ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu frá 8. júní síðastliðnum, þegar lögbann var sett á verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra, og ekki tekið til máls frá 8. apríl en þá var vantraust á sitjandi ríkisstjórn rætt.
Fjarvera Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, fylgir svipuðu munstri þó hún sé oftar viðstödd. Þingið 2013-14 var hún fjarverandi í 54 skipti, 93 skipti þingið 2014-15 og hefur verið fjarverandi 212 sinnum á yfirstandandi þingi.
Átta ráðherrar eiga einnig sæti á þingi en meðal óútskýrð fjarvera þeirra á kjörtímabilinu er 619 skipti. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, er sá ráðherra sem oftast hefur verið fjarverandi eða í 916 skipti en Sigurður Ingi Jóhannsson fylgir á hæla hennar með 895 skipti. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, er sá ráðherra sem sjaldnast hefur verið fjarverandi, 255 sinnum. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, tilkynnir sjaldnast um fjarvistir af ráðherrunum.
Ellefu þingmenn mæta sjaldnar í atkvæðagreiðslur en meðalráðherrann. Auk þeirra fimm, sem sjaldnast mæta, ræðir þar um Kristján Möller (729), Árna Pál Árnason(815), Jón Gunnarsson (910), Guðlaug Þór Þórðarsson (713), Höskuld Þórhallsson (867) og Sigríði Ingibjörg Ingadóttur (889).
Ekki náðist í Össur Skarphéðinsson eða Sigmund Davíð Gunnlaugsson við vinnslu fréttarinnar.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.