Innlent

Allt að fimmfaldur munur á kostnaði

Sæunn Gísladóttir skrifar
Rekstrarkostnaður grunnskóla á hvern nemenda á Íslandi er mjög hátt miðað við önnur OECD ríki.
Rekstrarkostnaður grunnskóla á hvern nemenda á Íslandi er mjög hátt miðað við önnur OECD ríki. Vísir/GVA
Meðalrekstrarkostnaður á hvern nemanda í grunnskólum landsins vegna yfirstandandi skólaárs er 1,72 milljónir króna samkvæmt tölum Hagstofunnar. Rúmlega fimmfaldur munur er á hæsta og lægsta kostnaði nemenda milli sveitarfélaga samkvæmt tölum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Meðalrekstrarkostnaður á hvern nemanda í grunnskólum, sem reknir eru af sveitarfélögum, árið 2015 reyndist vera 1,65 milljónir króna samkvæmt tölum Hagstofunnar og út frá því má áætla að rekstrarkostnaður á hvern nemanda á yfirstandandi skólaári sé 1,72 milljónir króna.

Samkvæmt tölum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2015 var rekstrarkostnaður grunnskóla á hvern nemanda hæstur í Árneshreppi þar sem hann nemur 5,5 milljónum króna, en lægstur í Garðabæ  þar sem hann var ein milljón.

Vegið landsmeðaltal árið 2015 var 1,26 milljónir krónur samkvæmt tölum sambandsins. Tölurnar eru lægri en hjá Hagstofunni þar sem innri leiga og skólaakstur eru ekki meðtalin. Samkvæmt tölum frá sambandinu er kostnaður áberandi minni á þéttbýlum svæðum. Rekstrar­kostnaður er milli 1,0 og 1,5 milljónir króna á höfuðborgarsvæðinu og 1,1 milljón í Akureyrarkaupstað. Aftur á móti er kostnaður með hæsta móti í Borgarfjarðarhreppi, eða 4,3 milljónir króna, og 3,7 milljónir í Kaldrananeshreppi.

Fram kemur í ársreikningi sveitarfélaga 2015 að rekstrarkostnaður grunnskóla á hvern nemanda á Íslandi sé með því hæsta sem gerist meðal OECD-ríkja.

Fréttin birtist fyrst i Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×