Erlent

Frammámenn í Repúblikanaflokknum draga stuðning sinn til baka

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/Getty
Fjölmargir áhrifamenn í bandaríska Repúblikanaflokknum hafa farið fram á að Donald Trump forsetaframbjóðandi dragi framboð sitt til baka eftir að hljóðupptökum þar sem hann talar með niðrandi hætti um konur var lekið til fjölmiðla. Málið hefur vakið mikla hneykslan en upptökurnar eru frá árinu 2005.

Að minnsta kosti tíu Repúblikanar hafa sagt að þeir muni ekki kjósa Trump vegna ummælanna og þá hefur Mike Pence, varaforsetaefni Trump, sagt ummælin ófyrirgefanleg. Fjölmargir hafa farið fram á að Pence taki við keflinu.

John McCain fyrrum forsetaefni flokksins hefur dregið stuðning sinn til baka sem og Condoleezza Rice, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

„Nú er nóg komið. Donald Trump á ekki að verða forseti. Hann á að draga framboð sitt til baka,“ sagði Rice á Facebook-síðu sinni.

Trump hefur beðist afsökunar á ummælum sínum, en segist ekki ætla að draga framboð sitt til baka.

Þrátt fyrir að Trump hafi mætt mikilli mótstöðu meðal flokksmanna sinna komu hundruð stuðningsmanna hans saman fyrir utan Trump Towers í gær og hvöttu hann áfram. Mikil ringulreið skapaðist eftir að Trump kom út og þakkaði þeim fyrir, líkt og sjá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan.

Trump mætir Hillary Clinton í seinni forsetakappræðum frambjóðandanna í St. Louis í Missouri í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×