Starfsmenn Faxaflóahafna uppgötvuðu um klukkan sex í kvöld að mikill sjór var kominn um borð í víkingaskipið Véstein þar sem það lá við bryggju við Norðurbugt á Granda. Skipið sökk við bryggjuna en sjór skvettist um borð í rokinu.
Ketill Magnússon, eigandi skipsins, segir í samtali við Vísi að lensidæla sé í skipinu sem hafi líklega slegið út. Hann hafði farið um borð fyrr í dag og gengið úr skugga um að allt væri með kyrrum kjörum og að skipið væri vel bundið.
Þegar þetta er skrifað vinna starfsmenn Köfunarmiðstöðvarinnar að því að koma belgum á skipið svo hægt verði að ná því upp og á þurrt. Til stendur að hífa það upp í kvöld.
Vésteinn hefur verið notaður til siglinga með ferðamenn frá Reykjavík, en þeim siglingum hefur verið hætt og til stóð að ganga frá Vésteini fyrir veturinn.
Varðandi tjón á skipinu segir Ketill að ekkert hafi séð á Vésteini.
„Þetta er mjög sterklega byggður bátur. Við verðum að meta það þegar hann er kominn á landi. Þá sjáum við það betur. Það er mótor í honum sem þarf að koma strax í hreinsun. Maður sér samt ekkert á Vésteini. Hann er ekkert brotinn eða svoleiðis“
„Það er bara að vonast til þess að allt gangi vel,“ segir Ketill.
