Innlent

Árni Páll íhugar að kvarta til ÖSE

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason vísir/pjetur
Til greina kemur að kvarta til Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, ef ríkisstjórnarflokkarnir halda áfram kosningabaráttu á meðan minnihlutinn sinnir þingstörfum. Þetta segir þingmaður Samfylkingarinnar.

„Þetta er seinni starfsáætlunin sem heldur ekki og nú er sú staða komin upp að stjórnin er í raun fallin á tíma,“ segir Árni Páll Árnason. „Stjórnin stendur frammi fyrir því sama og síðasta ríkisstjórn, að klára verður þau mál sem sátt er um en sleppa öðru.“

Eitt hlutverka ÖSE er að hafa eftirlit með kosningum. Hingað til hefur eftirlitið á Íslandi verið smátt í sniðum. Þingmaðurinn segir að það skekki samkeppnina í aðdraganda kosninga að stjórnarmeirihlutinn nýti sér yfirburðastöðu sína til að heyja kosningabaráttu á meðan minnihlutinn er staddur á þinginu. 

„Stjórnarflokkar sem halda þinginu áfram þrátt fyrir að starfsáætlun sé búin, hirða ekki um að sinna lagaskyldum um að vera sjálfir í þinginu, til þess eins að hafa áhrif á möguleika stjórnarandstöðu til að fara í kosningabaráttu, þeir eru ekki að uppfylla lýðræðislegar grundvallarreglur,“ segir Árni Páll.

„Ef menn sjá ekki hvers konar rugl er hér í gangi þá blasir það við að við verðum að biðja ÖSE um að senda hingað kosningaeftirlit sambærilegt því sem þekkist í löndum sem við viljum helst ekki bera okkur saman við.“

Þingfundi var frestað ítrekað í gær þar til honum var að lokum slitið klukkan 18. Aðeins dagskrárliðurinn störf þingsins var tekinn til umræðu. Fundur hefur verið boðaður klukkan 10.30 í dag en dagskrá hans er sú sama og á fundinum í gær.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×