Fótbolti

Stelpurnar spila 3-5-2 gegn Kína: Svona er byrjunarliðið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Freyr Alexandersson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, er búinn að tilkynna byrjunarliðið sem mætir Kína í fyrsta leik fjögurra þjóða æfingamóts í Chongqing klukkan 11.35 að íslenskum tíma á morgun.

Freyr ætlar að prófa leikkerfið 3-5-2 og verður með þær Glódísi Perlu Viggósdóttur, Sif Atladóttur og Önnu Björk Kristjánsdóttur í hjarta varnarinnar.

Dóra María Lárusdóttir, sem er betur þekkt fyrir góðan sóknarleik, verður hægri vængbakvörður á móti Hallberu G. Gísladóttur en Dagný Brynjarsdóttir, Sara Björk og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir verða á miðjunni.

Blikarnir Fanndís Friðriksdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir skipa framlínuna en Margrét Lára Viðarsdóttir byrjar á varamannabekknum.

Leikurinn fer fram á Yongchuan Sport Center en hann er liður í Sincere Cup. Búist er við um 20.000 manns á leikinn á morgun enda heimakonur að spila. Auk Kína og Íslands taka þátt í mótinu Danmörk og Úsbekistan.

Byrjunarliðið: Guðbjörg Gunnarsdóttir; Glódís Perla Viggósdóttir, Sif Atladóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir; Dóra María Lárusdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Hallbera G. Gísladóttir; Fanndís Friðriksdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×