Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson var í marki Randers og hélt hreinu þegar liðið lagði Odense í dönsku úrvalsdeildinni.
Randers hefur átt góðu gengi að fagna í dönsku deildinni og voru fyrir leikinn rétt fyrir aftan toppliðin í töflunni. Ólafur Kristjánsson er þjálfari liðsins en hann tók við því í sumar. Odense var aftur á móti í næst neðsta sætinu.
Munurinn á liðunum kom svo í ljós í leiknum sjálfum. Randers var töluvert sterkara liðið og komst í 1-0 strax á 9.mínútu með marki frá Mayron George.
Svíinn Mikael Ishak kom Randers í 2-0 á 61.mínútu og mínútu fyrir leikslok bætti hann við þriðja markinu og 3-0 sigur Randers í höfn.
Með sigrinum fór Randers upp í 2.sæti deildarinnar og er sex stigum á eftir FC Kaupamannahöfn sem er í efsta sætinu þegar þrettán umferðir hafa verið leiknar.
Fótbolti