Íslenski boltinn

Kristján: Deildin verður sterkari á næsta ári

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristján Guðmundsson var í dag ráðinn þjálfari karlaliðs ÍBV í knattspyrnu til næstu þriggja ára. Kristján mun flytja til Vestmannaeyja og koma að yngri flokka starfi hjá félaginu.

„Báðir aðilar tóku sinn tíma sem þeir þurftu í þetta. En það má segja að það hafi verið þessi vika sem þetta tók,“ sagði Kristján um aðdraganda þess að hann var ráðinn til íBV.

„Ég mun gera það. Þegar ég er búinn að semja við skólastjórann hjá mér um að fara úr þessari vinnu sem ég er í núna. En mjög fljótlega mun ég flytja til Eyja og hefja æfingar þar,“ sagði Kristján aðspurður hvort hann myndi flytja búferlum til Vestmannaeyja. ÍBV hefur verið í fallbaráttunni undanfarin tímabil og endaði í 9.sæti Pepsi-deildarinnar í sumar. Kristján sagði næsta skref að líta yfir leikmannahópinn.

„Það þarf að sjá hverjir verða áfram og hverjir ekki. En fyrst og fremst er stefnan að búa til fleiri betri leikmenn úr Eyjum til þess að stíga upp í meistaraflokkinn og skara fram úr. Ég held að ÍBV þurfi á því að halda núna,“ bætti Kristján við.

Kristján sagði markmiðin vera skýr en sagði jafnframt að deildin á næsta ári yrði sterk.

„Markmiðið er að losa sig við að vera tengdur fallinu. En deildin á næsta ári verður mjög sterk og sterkari en undanfarin ár. Ég með það út frá því að liðin sem eru að koma upp eru mjög fjársterk og geta sótt til sín leikmenn. Ég á ekki von á því að sjá færri erlenda leikmenn í deildinni á næsta ári.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×