Íslenski boltinn

Helgi Sigurðsson tekur við Fylki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Helgi Sigurðsson kveður uppeldisfélagið á nýjan leik og heldur í Árbæinn.
Helgi Sigurðsson kveður uppeldisfélagið á nýjan leik og heldur í Árbæinn.
Helgi Sigurðsson er næsti þjálfari Fylkis en gengið verður frá ráðningu hans í dag eða í síðasta lagi á morgun, samkvæmt heimildum Vísis. Hann fer í Árbæinn frá Víkingi þar sem hann hefur verið aðstoðarþjálfari meistaraflokks og yngri flokka þjálfari undanfarin misseri.

Helgi tekur við starfinu af Hermanni Hreiðarssyni sem lét af störfum eftir að Fylkir féll úr Pepsi-deildinni í haust. Árbæjarliðið var búið að vera í 16 ár samfellt í efstu deild, næst lengst allra á eftir KR. Fylkir hafnaði í ellefta sæti Pepsi-deildarinnar í sumar en liðið féll eftir tap gegn KR í lokaumferðinni.

Þetta verður í fyrsta sinn Helgi starfar sem aðalþjálfari, en hann hefur tvívegis verið aðstoðarþjálfari Víkings, bæði undir stjórn Ólafs Þórðarsonar og Milosar Milojevic, og einnig aðstoðarþjálfari Fram. Helgi kom aftur í Víkina frá Fram fyrir tveimur árum og varð aðstoðarþjálfari Milosar í fyrra þegar Ólafur var látinn fara.

Helgi er margreyndur atvinnu- og landsliðsmaður en hann spilaði í Danmörku og Grikklandi og á að baki 62 landsleiki fyrir Ísland. Hann varð Íslandsmeistari með uppeldisfélagi sínu Víkingi árið 1991 og aftur með Val árið 2007. Hann hefur auk þess spilað með Fram og Aftureldingu hér á landi.

Víkingar munu nú þurfa að leita að nýjum aðstoðarþjálfara fyrir Milos Milojevic en undir stjórn hans og Helga bættu Víkingar stigamet sitt í efstu deild í sumar. Víkingar höfnuðu í sjöunda sæti Pepsi-deildarinnar með 32 stig, þrettán stigum meira en Fylkismenn sem féllu og spila í Inkasso-deildinni að ári.

Uppfært 11:03: Fylkir hefur staðfest frétt Vísis. Helgi Sigurðsson hefur verið ráðinn til þriggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×