Innlent

Brjóstagjöf ekki brot á þingsköpum: „Ekki sá tréhestur að ég fari að gera athugasemd við þetta“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Einar K. Guðfinsson, forseti Alþingis, lítur ekki svo á að brjóstagjöf Unnar Brár í ræðustól Alþingis hafi verið brot á þingsköpum.
Einar K. Guðfinsson, forseti Alþingis, lítur ekki svo á að brjóstagjöf Unnar Brár í ræðustól Alþingis hafi verið brot á þingsköpum. Vísir/Gva
Unnur Brá Konráðsdóttir vakti athygli fyrr í dag þegar hún gaf dóttur sinni brjóst í ræðustól Alþingis, en Unnur Brá eignaðist dóttur þann 1. september síðastliðinn. Atvikið hefur farið eins og eldur í sinu um Internetið og vakið lukku víða. 

Einar K Guðfinnsson, forseti Alþingis, segir að brjóstagjöf Unnar Brár sé ekki brot á þingsköpum þrátt fyrir strangar reglur um hverjir megi hafa viðveru í þingsal á meðan þingfundi stendur.

„Nei ég lít nú ekki þannig á, alls ekki. Það er engin sérstök heimild fyrir því, það er ekki kveðið á um þetta neitt í þingsköpum en þetta er fráleitt neitt brot á þingsköpum og forseti telur þetta hafa verið mjög eðlilegan hlut,“ segir Einar í samtali við Vísi. 

Sjá einnig:Með barn á brjósti í ræðustól Alþingis

Reglur um viðveru í þingsal eru strangar, og er yfirleitt mega engir aðrir en þingmenn, ráðherrar og starfsmenn þingsins vera í salnum. Aðspurður segist Einar þó gera greinarmun á þessu atviki og ef aðrir fullorðnir einstaklingar væru í salnum.

„Já já, auðvitað. Hér er verið að ræða um móður og barn, kornabarn, sem þurfti fullrar athygli við og umönnunar í þessum aðstæðum. Þó að við þurfum að vera ströng á formsatriðum þá er ég nú ekki sá tréhestur að ég fari að gera athugasemd við þetta.“

Ræðu Unnar Brár þar sem dóttirin er með í för má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×