Innlent

Óvissa um afdrif frumvarpsins eftir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Jón Gunnarsson vonar að farsæl lausn finnist á málinu.
Jón Gunnarsson vonar að farsæl lausn finnist á málinu. vísir/pjetur
Óljóst er hvað verður um frumvarp iðnaðarráðherra sem heimilar Landsneti að leggja raflínur frá Kröflustöð að Bakka. Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi í gær úr gildi framkvæmdaleyfi Landsnets fyrir Kröflulínu 4. Skútustaðahreppur gaf leyfið út í apríl. Það var mat nefndarinnar að sveitarfélagið hefði brotið gegn náttúru-, skipulags- og stjórnsýslulögum.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi umhverfisráðherra.vísir/ernir
Síðustu daga hefur frumvarpið verið eitt helsta bitbein þingmanna. „Það er ljóst að forsendurnar, sem liggja að baki frumvarpinu, eru í uppnámi. Meirihlutinn verður að endurmeta málið frá grunni. Þá væri eðlilegast, og í samræmi við gott réttarríki, að leyfa úrskurðarnefndinni að hafa sinn gang,“ segir Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.

„Úrskurðurinn tekur til eins þáttar í mjög stórri framkvæmd og eftir sem áður eru mjög ríkir almannahagsmunir að málið haldi áfram,“ segir Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar. Hann segir að enn eigi eftir að skýrast hvort frumvarpið taki breytingum í kjölfar úrskurðarins. „Þessu máli var ýtt úr vör af síðustu ríkisstjórn og ég trúi ekki öðru en að þingið nái saman um viðunandi niðurstöðu.“

Snorri Baldurs­son, formaður Landverndar, fagnar niðurstöðunni. „Þetta er sigur fyrir náttúru Íslands og umhverfisverndarsamtök.“

Guðmundir Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir að farið verði yfir úrskurðinn á komandi dögum og næstu skref ákveðin í kjölfarið. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Kæra lagasetningu á Bakkalínur til ESA

Náttúruverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit og Landvernd hafa kært fyrirhugaða lagasetningu um Bakkalínur til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×