Íslenski boltinn

Guðlaugur tekur við Keflavíkurliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eysteinn Húni Hauksson, Jón G. Benediktsson og Guðlaugur Baldursson.
Eysteinn Húni Hauksson, Jón G. Benediktsson og Guðlaugur Baldursson. Mynd/Knattspyrnudeild Keflavíkur
Guðlaugur Baldursson er tekinn við sem þjálfari B-deildarliðs Keflavíkur í fótboltanum en hann tekur við starfi Þorvaldar Örlygssonar.

Guðlaugur Baldursson skrifaði undir þriggja ára samning en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Keflavík í kvöld.

Guðlaugur hefur einnig fengið fyrrum leikmann Keflavíkurliðsins til að aðstoða sig á komandi sumri. Guðlaugi til aðstoðar verður nefnilega Eysteinn Húni Hauksson sem kom til starfa hjá knattspyrnudeildinni síðastliðið haust og þekkir afar vel til félagsins sem fyrrum leikmaður og aðstoðarþjálfari.

Guðlaugur hefur undanfarin fimm ár verið aðstoðarþjálfari hjá Íslandsmeisturum FH ásamt því að stýra afreksþjálfun hjá þeim. Árin 2005 til 2006 var hann með meistaraflokk karla hjá ÍBV og á árunum 2008 til 2011 þjálfaði hann lið ÍR.

Guðlaugur hefur hjálpað FH-liðinu til að vinna þrjá Íslandsmeistaratitla á undanförnum fimm árum.

„Knattspyrnudeild Keflavíkur fagnar komu Guðlaugs og telur hann henta afar vel í það verkefni sem framundan er við að koma Keflavík aftur í fremstu röð. Reynsla og þekking Guðlaugs mun ennfremur nýtast gríðarlega vel í þeirri stefnumótun sem félagið hefur sett af stað undir forystu Margrétar Sanders hjá Strategíu," segir í fréttatilkynningunni frá Knattspyrnudeild Keflavíkur.

Keflavík lék í Inkasso-deildinni í sumar í fyrsta sinn frá 2003 en liðið féll úr Pepsi-deildinni í fyrrahaust. Keflavík endaði í þriðja sæti Inkasso-deildarinnar en liðið var þó sjö stigum frá því að endurheimta sætið sitt.

Keflavík tapaði aðeins þremur leikjum, færri en lið Grindavík sem fór upp í Pepsi-deildina, en ellefu jafntefli voru liðinu dýrkeypt þegar upp var staðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×