Erlent

Fá Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir kenningar sínar um samninga

Atli Ísleifsson skrifar
Bandaríkjamaðurinn Oliver Hart og Finninn Bengt Holmström.
Bandaríkjamaðurinn Oliver Hart og Finninn Bengt Holmström. Mynd/Nobel prize
Bandaríkjamaðurinn Oliver Hart og Finninn Bengt Holmström hljóta hagfræðiverðlaun sænska seðlabankans til minningar um Alfred Nóbel í ár. Þeir Hart og Holmström hljóta verðlaunin fyrir kenningar sínar um samninga og samningagerð.

Konunglega sænska vísindaakademían greindi frá þessu á fréttamannafundi sínum í Stokkhólmi í morgun.

Hart starfar við Harvard háskóla í Bandaríkjunum, en Holmström við Massachusetts Institute of Technology (MIT).

Hagfræðiverðlaunin hafa hafa verið veitt frá því 1969 og er almennt talað um verðlaunin sem hluta af Nóbelsverðlaununum.

Í grein Vísindavefsins segir að verðlaunin teljast þó strangt til tekið ekki til Nóbelsverðlauna enda eru þau ekki komin frá Alfred Nobel sjálfum. Hafi hann ekki minnst á verðlaun í hagfræði í erfðaskrá sinni. 

„Verðlaunin eru þó til minningar um hann og nefnast: Verðlaun Sænska seðlabankans í hagfræði til minningar um Alfred Nobel. Fyrstu hagfræðiverðlaunin voru veitt árið 1969 en þau fengu Ragnar Frisch frá Noregi og Jan Tinbergen frá Hollandi, fyrir þróun hagfræðilíkana,“ segir í greininni.

Skosk-bandaríski hagfræðingurinn Angus Deaton hlaut verðlaunin í fyrra fyrir greiningu sína á sambandi neyslu, fátækt og velferð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×