Innlent

Fjölmennt lið fréttamanna mætt þegar Birgitta kaus

Anton Egilsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík norður, var mætt í Laugalækjarskóla í Reykjavík í morgun til að nýta atkvæðisrétt sinn.  Athygli vakti að töluverður fjöldi erlendra fréttamanna umkringdi Birgittu á kjörstaðnum. 

„Ég er bjartsýn að eðlisfari“ sagði Birgitta við erlenda fréttamenn aðspurð um við hverju hún byggist við í kosningunum í dag.

„Ég reikna með breytingum. Ég veit ekki nákvæmlega hvað breytingarnar munu hafa í för með sér en það verða breytingar. Mikill hluti fólks  hefur kallað eftir breytingum og ég er viss um að við munum sjá fram á það þegar fyrstu tölur verða kynntar um klukkan tíu í kvöld. Ég er mjög spennt.“

Píratar tilbúnir að ráðast í breytingar

Hún segir Pírata vera rétta aðilann til að ráðast í þær breytingar á kerfinu sem fólk hefur kallað eftir.

„Ef fólk er þreytt á að lifa í samfélagi þar sem ríkir mikil óvissa á það að treysta á fólk sem vill gera grundvallarbreytingar á kerfinu. Við erum tilbúinn að gera allt það sem fólkið í landinu krefst af okkur.“

Greint var því á Vísi í gær að mikill áhugi væri á kosningunum hér á landi frá erlendum fjölmiðlum og velta flestir því fyrir sér hvort að Píratar komist til valda eður ei.

Kosningavakt Vísis fylgist grannt með gangi mála alla helgina. Vaktina má finna hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×