Innlent

Píratar kynna loftlagsstefnu sína

Samúel Karl Ólason skrifar
Einar Brynjólfsson, Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy
Einar Brynjólfsson, Birgitta Jónsdóttir og Smári McCarthy Vísir/FRIÐRIK ÞÓR
Píratar hafa samþykkt aðgerðarstefnu í loftlagsmálum og vilja uppfylla ákvæði Parísarsamningsins. Helsta markmiðið er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir árið 2025 og þeir sem mengi beri kostnaðinn af því.

Þá taka Píratar „skýra afstöðu gegn olíuleit og olíuvinnslu í efnahagslögsögu Íslands“. Flokkurinn vill frekar leggja áherslu á sjálfbærni með aukinni nýtingu endurnýjanlegrar og vistvænnar orku sem framleidd er hér á landi og að skattkerfið verði nýtt í hvívetna til að hvetja til athafna sem hafa litla eða enga losun mengandi efna.

„Öll starfsemi sem losar mengandi efni í umhverfið skal greiða mengunarrentu umfram hefðbundna skatta. Með því er einnig settur jákvæður þrýstingur á fyrirtæki til að leita leiða til að draga úr mengun,“ segir í tilkynningu frá Pírötum.

Þar segir einnig að mikilvægt sé að hraða rafvæðingu bifreiða- og skipaflotans og stefnt verði að samgöngukerfi sem nýti innlenda orku.

„Í því sambandi er mikilvægt að byggja upp innviði fyrir rafknúin og visthæf ökutæki og skip. Þá er lagt til að notkun olíu með brennisteinsinnihaldi yfir 0,1 prósent muni heyra sögunni til í íslenskri landhelgi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×