Innlent

Við­reisn vill ekki í „Pírata­banda­lagið“ og úti­lokar sam­starf við ríkis­stjórnar­flokkana

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefur ítrekað að flokkurinn útiloki ríkisstjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Hann hefur jafnframt fullyrt að honum hugnist ekki fimm flokka ríkisstjórnarsamstarf með stjórnarandstöðuflokkunum fjórum. 

Benedikt hafði lýst því yfir fyrir kosningar að ríkisstjórnarsamstarf flokkanna þriggja væri ekki möguleiki. Hann sagði í samtali við Frosta Logason og Mána Pétursson í útvarpsþættinum Harmageddon að áherslur Viðreisnar væru í veigamiklum atriðum frábrugðnar áherslum Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili.

Sjá einnig: Benedikt útilokar ríkisstjórnarsamstarf með núverandi ríkisstjórnarflokkum

Í samtali við Rás 2 í morgun lagði Benedikt áherslu á að viðhorf hans hafi ekki breyst frá því fyrir kosningar og því sé ekki útlit fyrir að Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn myndi nýja ríkisstjórn.

Benedikt sagði í viðtali við Rás 2 að Viðreisn væri tilbúin til þess að leiða stjórnarmyndunarviðræður ef til þess kæmi. 

Ekki er möguleiki á fimm flokka ríkisstjórn ef Viðreisn vill ekki ganga í lið með stjórnarandstöðuflokkunum.
Vill ekki í Píratabandalagið

Sjálfstæðisflokkurinn fékk mest fylgi í nýafstöðnum kosningum en flokkurinn náði inn 21 þingmanni. Ef mynda á ríkisstjórn án tilkomu Sjálfstæðisflokksins þarf fimm flokka til.

Í aukafréttatíma Stöðvar 2 nú í hádeginu gaf Benedikt í skyn að seta Viðreisnar í fimm flokka stjórn kæmi varla til greina. 

„Það væri kannski ekki óskastaðan. Ég er ekki alveg viss um að þjóðin sé að kalla eftir fimm flokka stjórn. Þá værum við að ganga inn í Píratabandalagið. Það hugnast mér nú ekki alveg,“ svaraði Benedikt aðspurður að möguleikanum á þátttöku Viðreisnar í fimm flokka ríkisstjórn.

Fyrir kosningar hafnaði Viðreisn stjórnarmyndunarviðræðum að frumkvæði Pírata sem fóru sem kunnugt fram á veitingarstaðnum Lækjarbrekku.

Ef marka má orð Benedikts er ljóst að ekki er möguleiki á fimm flokka vinstristjórn ásamt stjórnarandstöðuflokkunum. Þau ríkisstjórnarmynstur sem koma til greina eru því þriggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, þriggja flokka stjórn Pírata, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks eða þriggja flokka stjórn Pírata, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks.

Benedikt fer yfir málið í spilaranum að ofan eftir rúmar þrjár mínútur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×