Erlent

Heimsbyggðin biðlar til Michelle Obama að bjóða sig fram árið 2020

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Verður Michelle Obama kannski fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna?
Verður Michelle Obama kannski fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna? Vísir/Getty
Trump hefur ekki verið forsetaefni í heilan sólarhring, en fólk er strax farið að líta til næstu forsetakosninga árið 2020. Þrátt fyrir að Hillary Clinton hafi ekki hreppt Hvíta húsið er greinilegt að marga dreymir enn um að sjá konu í einu valdamesta embætti heims.

Þannig fór myllumerkið #Michelle2020 á flug um leið og niðurstöður voru ljósar og vildu netverjar þannig biðla til Michelle Obama, forsetafrúar Bandaríkjanna, að bjóða sig fram að fjórum árum liðnum. Forsetafrúin nýtur gríðarlega vinsælda en ekki er vitað hvað hún ætlar að taka sér fyrir hendur eftir að forsetatíð eiginmanns hennar lýkur.

Harðorð í garð Trump

Í tíð sinni sem forsetafrú hefur Obama meðal annars barist fyrir réttindum fyrrum hermanna og aðgengi stúlkna að menntun. Hún hefur ýjað að því að hún muni halda því verkefni áfram. Þá hefur hún einnig reynt að berjast gegn offitufaraldrinum með lýðheilsuátækinu „Let‘s move!“ eða „hreyfum okkur.“ 

Michelle Obama hefur verið gríðarlega áberandi í forsetatíð Barack og hafa ræður hennar um ýmis hitamál, svo sem lögregluofbeldi gegn svörtum, vakið mikla athygli. Ræða hennar á þingi Demókrata fyrr á árinu vakti sérstaklega mikla athygli, þar sem hún benti á þýðingu þess að eiginmaður hennar væri forseti.

„Ég vakna á hverjum morgni í húsi byggðu af þrælum. Og ég fylgist með dætrum mínum, tveim fallegum, gáfuðum, ungum svörtum konum, leika við hundana sína á lóðinni.“

Þá var hún einnig harðorð í garð Donald Trump þegar „píku ummælin“ frægu litu dagsins ljós fyrr í haust. Hún sagði á fundi í New Hampshire að ummælin hafi ollið henni miklum óþægindum. Allt frá því tók hún skýra afstöðu í öllum ræðum sínum og neitaði meðal annars að nefna Trump á nafn.

Ræðu Michelle Obama frá þingi Demókrata í júlí síðastliðnum má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Clinton sendi skýr skilaboð með fjólubláum

Hillary Clinton ávarpaði stuðningsmenn sína í dag í fyrsta sinn eftir að ljóst varð að hún hafði tapað í bandarísku forsetakosningunum fyrir Donald Trump. Clinton var klædd í svartan jakka með fjólubláum kragahornum en innan undir var hún í fjólublárri satínskyrtu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×