Erlent

Clinton verður ekki ákærð vegna tölvupóstanna

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Fregnirnar eru afar góðar fyrir Clinton en aðeins tveir dagar eru til kosninga.
Fregnirnar eru afar góðar fyrir Clinton en aðeins tveir dagar eru til kosninga. Vísir/Getty
James Comey, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar, tilkynnti þinginu í dag að Hillary Clinton verði ekki ákærð í kjölfar rannsóknar á nýjum sönnunargögnum í tölvupóstamáli hennar sem komu fram í dagsljósið fyrir skemmstu.

Í bréfi sem Comey ritar til þingsins segir að rannsóknarlögreglumenn alríkislögreglunnar hafi lokið rannsókn á öllum tölvupóstum sem voru á fartölvu Anthonys Weiner, sem er eiginmaður Humu Abedin, aðstoðarmanns Clinton til margra ára.

Sjá einnig: Tölvupóstar Clinton sem FBI rannsakar komu frá Anthony Weiner

Comey greindi frá því í síðustu viku að hann hefði gefið rannsóknarlögreglumönnum fyrirmæli um að rannsaka ný sönnunargögn vegna tölvupóstanotkun Clintons  frá árum hennar í embætti utanríkisráðherra. Tímasetning ákvörðunar alríkislögreglunnar kom sér afar illa fyrir Clinton sem er á lokaspretti kosningabaráttu sinnar til forseta Bandaríkjanna. Svo virðist sem málið hafi haft talsverð áhrif á gengi Clinton en skoðanakannanir undanfarinna daga hafa sýnt að andstæðingur Clinton, Donald Trump, saxar sífellt á forskot hennar.

Sjá einnig: Allt sem þú þarft að vita um tölvupóstamál Hillary Clinton

Ákvörðun alríkislögreglunnar um að ákæra ekki eru því jákvæðar fréttir fyrir Clinton á síðustu metrunum en gengið verður til forsetakosninga í Bandaríkjunum á þriðjudaginn næstkomandi.

Anthony Weiner ásamt Humu Abedin, aðstoðarmanni Clinton.Vísir/EPA
Tölvupóstnotkun Clinton komst fyrst í sviðsljósið vorið 2015 þegar upp komst að hún hafði ekki notað öruggt netfang í opinberum erindagjörðum heldur eigið netfang sem var hýst á einkavefþjóni hennar.

Clinton var ekki ákærð vegna málsins en það hefur engu að síður haft gríðarlega neikvæð áhrif áhrif á orðspor hennar. Donald Trump hefur tönnlast á málinu í aðdraganda kosninganna og hefur margsinnis kallað Clinton glæpamann vegna þess. Hann hefur jafnframt fullyrt að verði hann kjörinn forseti muni hann sjá til þess að mál hennar verði rannsakað að nýju og hún fangelsuð. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×