Erlent

Áhangendur Trumps réðust harkalega á mótmælanda

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Frá fundi Trumps í Reno.
Frá fundi Trumps í Reno. mynd/getty
Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblíkana, var forðað af sviði á kosningafundi í Reno í Nevada-fylki í morgun en öryggisverðir töldu að einhver áhorfendanna hefði dregið fram skotvopn á fundinum. Svo reyndist þó ekki vera. 

Sjá einnig: Trump forðað af sviðinu í Reno

Hinn meinti byssumaður var öllu heldur óvopnaður mótmælandi sem hélt á skilti sem á stóð „Repúblíkanar gegn Trump“.

Mótmælandinn heitir Austyn Crites og er 33 ára íbúi Nevada-fylkis. Hann sagði í samtali við The Guardian að skiltið sem hann hélt á hafi valdið slíkum usla að fundargestir hafi á endanum ráðist á hann.

„Fyrstu viðbrögð fólks voru að púa á mig og ég hafði svo sem búist við því,“ sagði Crites í samtali við The Guardian. „Skyndilega fór fólkið í kringum mig að beita mig ofbeldi. Það greip í handlegginn á mér og reyndi að hrifsa skiltið úr höndum mér,“ sagði Crites.

Trump virðist hafa orðið var við stympingarnar og benti í áttina að mótmælandanum. Í kjölfarið var Trump forðað af sviðinu og veittist þá hópur fólks að Crites.

Að sögn Crites héldu reiðir fundargestir honum niðri á meðan þeir spörkuðu í hann, kýldu hann, tóku hann kverkataki og klipu þéttingsfast í eistu hans.

Crites, sem æfði glímu sem barn og ungur maður, marðist talsvert við átökin en er ekki alvarlega slasaður. Hann telur að ef ekki hefði verið fyrir glímukunnáttu sína, þá hefði hann mögulega getað hlotið alvarlegan skaða af. „Þessir menn tóku mig kverkataki, þeir hefðu auðveldlega getað kyrkt mig til dauða,“ sagði Crites sem náði að halda höfði sínu kyrru á hlið til þess að halda öndunarvegi sínum opnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×