Innlent

Bjarni rætt við fleiri en einn formann í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá þingflokksfundi Sjálfstæðisflokks sem hófst nú klukkan 16.
Frá þingflokksfundi Sjálfstæðisflokks sem hófst nú klukkan 16. vísir/eyþór
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur rætt við fleiri en einn formann í dag en vill ekki gefa upp um formenn hvaða stjórnmálaflokka er að ræða. Þetta sagði Bjarni í samtali við fréttastofu fyrir þingflokksfund sjálfstæðismanna sem hófst núna klukkan 16.

Bjarni sagði jafnframt að það liggi ekki beint við að hefja stjórnarmyndunarviðræður við Bjarta framtíð og Viðreisn. Allt sé enn opið.

Vísir náði tali af Óttarri Proppé formanni Bjartrar framtíðar og Birgittu Jónsdóttur kapteini Pírata en hvorugt þeirra sagðist hafa rætt við Bjarna í dag.

Ekki náðist í Benedikt Jóhannesson formann Viðreisnar né í Katrínu Jakobsdóttur formann Vinstri grænna við vinnslu fréttarinnar. Þá náðist heldur ekki í Sigurð Inga Jóhannsson formann Framsóknarflokksins eða Loga Má Einarsson formann Samfylkingarinnar.

Uppfært klukkan 17:20: Benedikt Jóhannesson segir að Bjarni hafi tvívegis haft samband við hann í dag en staðan sé óbreytt; engar formlegar viðræður um myndun ríkisstjórnar séu hafnar. Þá sagði Katrín Jakobsdóttir að hún hefði ekki rætt við Bjarna í dag.


Tengdar fréttir

Óttarr: Ekki byrjað að ræða hver ætti að leiða fjögurra flokka stjórn

Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar segir að fundur þeirra Benedikts Jóhannessonar formanns Viðreisnar með Katrínu Jakobsdóttur formanni Vinstri grænna í vikunni hafi verið almennur þar sem þau hafi verið að reyna að horfa í möguleikana sem úrslit kosninganna bjóða upp á.

Benedikt segir engan póker í gangi

Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar furðar sig á frétt þess efnis að fyrir liggi hugmyndir um ríkisstjórn með sig sem forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×