Erlent

Obama við kjósendur í Norður-Karólínu: „Framtíð lýðveldisins hvílir á ykkar herðum“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Obama á kosningafundinum í gær.
Obama á kosningafundinum í gær. vísir/epa
Barack Obama forseti Bandaríkjanna hvetur Demókrata af öllum kynþáttum til að fara og kjósa Hillary Clinton  í komandi forsetakosningum á þriðjudaginn kemur. Hann segir að framtíð Bandaríkjanna, og alls heimsins í raun, sé í húfi.

Obama hélt ræðu á kosningafundi í Norður-Karólínu í gær. Þar gagnrýndi hann keppinaut Clinton, Donald Trump, harðlega og sagði hann vera mikla ógn við þau borgaralegu réttindi sem almenningur hefur náð að knýja fram síðustu áratugi.

„Framtíð lýðveldisins hvílir á ykkar herðum og framtíð heimsins er í raun í húfi. Þið hér í Norður-Karólínu verðið að sjá til þess að við munum halda áfram á réttri leið,“ sagði Obama í gær en Norður-Karólína er eitt af lykilríkjunum í kosningunum sem fara fram á þriðjudaginn í næstu viku.

Obama sagði að hann sjálfur væri ekki á kjörseðlinum en þó væri þar ýmislegt annað. Fólk væri ekki bara að velja á milli Clinton og Trump.

„Sanngirni er á kjörseðlinum, kurteisi er á kjörseðlinum, réttlæti er á kjörseðlinum, framfarir eru á kjörseðlinum og lýðræðið okkar er á kjörseðlinum,“ sagði Obama.

Baráttan fyrir Hvíta húsinu harðnar nú með hverjum degi enda mjög stutt í að Bandaríkjamenn gangi að kjörborðinu. Trump var því ekki lengi að svara fyrir sig en hann ávarpaði stuðningsmenn sína á kosningafundi í Flórída í gær.

 

Trump sagði að Obama ætti heldur að einbeita sér að að því að stjórna landinu heldur en að taka þátt í kosningabaráttu Clinton. Þá sparaði Trump ekki stóru orðin og sagði ljóst að á síðustu dögum hefði Obama orðið sífellt vanstilltari í málflutningi sínum.


Tengdar fréttir

Nærast bæði á óvinsældum hins

Á þriðjudaginn í næstu viku lýkur hinni ógnarlöngu kosningabaráttu í Bandaríkjunum þegar loks verður gengið til kosninga. Á lokasprettinum hefur dregið mjög saman með þeim Hillary Clinton og Donald Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×