Jónas Jónasson, leiðsögumaður sem var með sjö manna hóp í lóninu í gær, varð vitni að uppákomunni sem skaut fólki skelk í bringu í fyrstu.
„Við vorum mjög óttaslegin fyrst. Héldum fyrst að einhver væri inni í bílnum, að þetta væri sjálfsvíg. Þetta var eitthvað svo út í bláinn,“ segir Jónas í samtali við Vísi. Skömmu áður hafði Jónas rennt í hlað með hóp sinn og rétt á eftir þeim kom erlenda parið og lagði við hliðina. Jónas áttaði sig á því að um þann bíl var að ræða og skömmu síðar heyrði hann spurt:
„Is it our car?“

Jónas hringdi í 112 og tilkynnti atvikið og gat um leið upplýst lögreglu um að engin hætta væri á ferðum þótt tjónið væri eitthvað. Allur farangur parsins, pilts frá Frakklandi og stúlku frá Taílandi, var í bílnum. Þar með talinn flugmiði og vegabréf. Allt í rauninni nema myndavélarnar sem þau voru að nota til að mynda lónið í bak og fyrir.
Stúlkunni var sérstaklega brugðið og grét í geðshræringu. Þau leituðu í framhaldinu til starfsfólksins í þjónustumiðstöðinni.
Að neðan má sjá myndband sem Jónas tók af bílnum fljótandi í Jökulsárlóni.
Jónas segir hóp sinn, sem er allur skipaður konum frá Ástralíu, Hong Kong, Bandaríkjunum og víðar, hafa verið brugðið í fyrstu en svo hafi uppákoman kryddað daginn þeirra. Þetta sé ekki eitthvað sem fólk sjái á hverjum degi. Það hafi í raun verið mögnuð sjón að fylgjast með bílnum í lóninu.

„Það var magnað hvað hann flaut, líklega í tíu til fimmtán mínútur,“ segir Jónas. Til að byrja með flaut hann nokkuð hátt í lóninu. Þegar bíllinn byrjaði svo að sökkva gerðist það hratt. Þá hafði kviknað á ljósunum á bílnum og rúðuþurrkurnar voru farnar á fullt.
Jónas ræddi við hóp sinn og sagði líklegustu skýringuna vera þá að gleymst hefði að setja bílinn í handbremsu. Já, eða handbremsudraugurinn hefði verið á vettvangi enda virðist það vera orðið endurtekið vandamál að bílar hafni í Jökulsárlóni.
Að neðan má sjá myndband af bílnum sökkva í lónið.
Hann veltir fyrir sér, í ljósi þess að um endurtekið vandamál virðist vera að ræða, hvort ekki þurfi að koma upp einhverjum þröskuldum á bílastæðið til að hindra að þetta geti gerst.
Jónas er á sjö daga ferð um landið í fyrstu ferð ársins hjá Extreme Iceland. Þau ætla aftur í lónið í fyrramálið en þau gista í Gerði við Hala, austan af Jökulsárlóni. Þau ætla að virða lónið fyrir sér aftur í fyrramálið.
Uppfært klukkan 9:45
Ferðamenn í hópi Jónasar ræddu við parið eftir að bíllinn rann út í lónið. Þau fullyrða að handbremsan hafi verið á og segjast ekki skilja hvernig þetta hafi getað gerst.
Þá er rétt að taka fram að ástæða þess að bíllinn flaut svo lengi er sú að hann hefur verið lokaður, allir gluggar lokaðir, og loft ekki komist inn. Hefðu rúður verið niðri hefði hann sokkið um leið.