Erlent

Trump semur um greiðslur vegna Trump-háskólans

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna. Nordicphotos/AFP
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, hefur samið um að greiða þremur nemendum sem höfðuðu mál gegn honum vegna Trump-háskólans samtals 25 milljónir Bandaríkjadala, eða 2,8 milljarða íslenskra króna.

Nemendurnir sögðust hafa fengið vilyrði fyrir því að fá sérstaka kennslu í fasteignasölu frá kennurum sem væru sérvaldir af Trump sjálfum, gegn greiðslu upp á 35 þúsund dali, eða tæplega 4 milljónir króna.

Sú varð hins vegar aldrei raunin og það næsta sem nemendurnir komust auðkýfingnum var þegar þeir fengu mynd af sér með pappírsútgáfu af honum, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.  

Trump-háskólanum var lokað fyrir sex árum, en Donald Trump var sakaður um að hafa blekkt nemendur skólans varðandi ýmsa þætti námsins. Hann hefur ítrekað haldið fram sakleysi sínu og sagst ekki ætla að greiða krónu. Ríkissaksóknari í New York segir að nemendurnir þrír hafi unnið stórsigur, ekki bara fyrir þá sjálfa heldur alla þá sex þúsund sem stundað hafa nám í skólanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×