Erlent

Deilur innan teymis Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Jared Kushner, ásamt eiginkonu sinni Ivönku og Tiffany Trump.
Jared Kushner, ásamt eiginkonu sinni Ivönku og Tiffany Trump. Vísir/AFP
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hefur gripið til Twitter til að verjast frásögnum um deilur, rifrildi og uppsagnir innan teymis síns. Tveimur reynslumiklum embættismönnum var sagt upp og Mike Pence, varaforseti Trump, hefur tekið yfir teyminu af Chris Christie, ríkisstjóra New Jersey.

Umrætt teymi vinnur að því að skipa í um 4000 stöður sem forsetinn verðandi þarf að fylla í Washington og hjálpa til við að skipuleggja forsetaskiptin í janúar.

Samkvæmt heimildum CNN hefur Jared Kushner, tengdasonur Trump, valdið usla meðal starfsmanna Trump. Hann er sagður vinna hörðum höndum að því að koma öllum þeim sem tengjast Christie úr teyminu. Pence sé að koma eigin fólki fyrir í staðinn.

Christie var aðalsaksóknari New Jersey þegar faðir Kushner var fangelsaður fyrir skattsvik, ólöglegan fjárstuðning við stjórnmálaöfl og fyrir að hafa áhrif á vitni árið 2004.

Meðal þeirra sem hafa yfirgefið teymið er fyrrum þingmaðurinn Mike Rogers, en hann var yfir þjóðaröryggisdeild Trump. Fregnir hafa borist af því að ástæða þess að hann hafi verið rekinn sé að hann hafi ekki gengið nógu hart fram gegn Hillary Clinton þegar hún var til rannsóknar af þinginu.

Sjálfur segir Trump að ferlið sé mjög skipulagt og að hann sé sá eini sem viti hverjir muni fylla æðstu stöðurnar í ríkisstjórn sinni.

Samkvæmt Reuters er Kushner einn helsti ráðgjafi Trump og er hann sagður hafa verið ómissanlegur í kosningabaráttunni. Lög Bandaríkjanna koma í veg fyrir að forseti geti ráðið fjölskyldumeðlimi til starfa í ríkisstjórn, en Kushner er þó talinn muna starfa náið með forsetanum verðandi.

Reuters segir einnig frá því að breytingunum í teymi Trump sé mögulega ætlað til að bola innherjum Washington frá en Trump lofaði því í kosningabaráttu sinni að draga úr spillingu í Washington og draga úr völdum þrýstihópa. Hann hefur þó verið gagnrýndur fyrir að vinna með þrýstihópum og öðrum innherjum í Washington.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×