Formaður Viðreisnar, formaður Bjartar Framtíðar og þingmenn flokkanna hafa sagt í samtali við Vísi að viðræðurnar hafi fyrst og fremst strandað á umræðum um málefni tengd sjávarútvegi en Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki ráðast í þær breytingar sem Björt framtíð og Viðreisn lögðu til.
Þá segir Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, að aðildarumsókn að Evrópusambandinu hafi verið ásteytingarsteinn í viðræðunum. „Þetta stendur fyrst og fremst á þessum tveimur málum,“ segir Hanna Katrín á Facebook og formaður Bjartrar framtíðar tekur í sama streng.
Óttarr Proppé: Viðræðurnar strönduðu á ESB og kerfisbreytingum í sjávarútvegi.

Sjá einnig: Benedikt Jóhannesson: „Það var nokkuð ljóst hver yrði forsætisráðherra“
Tvær vikur eru síðan að Bjarni fékk stjórnarmyndunarumboðið frá Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands. Formlegar viðræður flokkanna þriggja hófust síðastliðinn föstudag og hafa staðið síðan þá, en hafa ekki borið árangur. Áður en þær hófust sagði Bjarni að niðurstaða ætti að liggja fyrir innan fárra daga um hvort grunvöllur væri til samstarfs þessara flokka.
Fjögurra manna teymi frá hverjum flokki komu að stjórnarmyndunarviðræðunum.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur sent eftirfarandi tilkynningu á fjölmiðla, þar sem viðræðuslitin eru staðfest:
Tilkynning frá Sjálfstæðisflokknum
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur stöðvað viðræður milli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar
Fundir flokkanna að undanförnu hafa leitt í ljós góðan samhljóm um ýmis mál, en áherslumun um útfærslu annarra, enda stefna flokkanna ólík á ýmsum sviðum.
„Ég tel að samtöl undanfarinna daga hafi leitt í ljós að það væri afar óvarlegt að leggja af stað með þann málefnagrunn sem um er rætt og nauman meirihluta inn í kjörtímabilið. Margt segir mér að aðstæður kalli á ríkisstjórn með breiðari skírskotun og sterkari meirihluta en þann sem þessir þrír flokkar geta boðið. Ég útiloka ekkert fyrirfram í þeim efnum,“ segir Bjarni.