Erlent

Clinton kennir yfirmanni FBI um ósigurinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Hillary Clinton ásamt eiginmanni sínum Bill þegar hún ávarpaði stuðningsmenn sína eftir að úrslit forsetakosninganna voru ljós.
Hillary Clinton ásamt eiginmanni sínum Bill þegar hún ávarpaði stuðningsmenn sína eftir að úrslit forsetakosninganna voru ljós. Vísir/Getty
Hillary Clinton kennir James Comey, yfirmann bandarísku alríkislögreglunnar FBI, um ósigur sinn í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.

Frá þessu er greint á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC en þar er haft eftir Clinton að tilkynning Comey um að hefja að nýju rannsókn á tölvupóstnotkun Clinton á meðan hún var utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefði stöðvað þann skrið sem framboð hennar var komið á.

BBC segir Clinton hafa sagt þetta við helstu styrktaraðila framboðs hennar í gegnum síma en því símtali hafi verið lekið í fjölmiðla.

Clinton var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Barack Obama frá 2009 til 2013 en Comey tilkynnti bandaríska þinginu 28. október síðastliðinn, eða ellefu dögum fyrir forsetakosningarnar, að bandaríska alríkislögreglan ætlaði að rannsaka tölvupósta Clinton sem var nýverið lekið. Með því tók bandaríska alríkislögreglan rannsókn málsins upp á ný eftir að hafa lokið henni í júlí síðastliðnum.

Sunnudaginn 6. nóvember, tveimur dögum fyrir kosningarnar, tilkynnti Comey að FBI hefði aftur komist að sömu niðurstöðu og í júlí síðastliðnum, að ekki ætti að ákæra Clinton.

„Það eru margar ástæður fyrir því að kosningar á borð við þessar eru ekki árangursríkar,“ sagði Clinton við styrktaraðila sína.

Bætti Clinton við að hún teldi að ummæli Comey, þess efnis að hún ætti ekki að sæta ákæru, hefði eflt stuðningsmenn Donald Trump, nýkjörins forseta Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×