Erlent

Trump segir atvinnumótmælendur hvatta af fjölmiðlum

Samúel Karl Ólason skrifar
Mótmæli fóru fram víða um Bandaríkin í nótt.
Mótmæli fóru fram víða um Bandaríkin í nótt. Vísir/Getty
Enn er mótmælt á mörgum götum Bandaríkjanna eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Um fjögur þúsund manns voru á götum Portland þar sem rúður voru brotnar og eldar voru kveiktir. Lögreglan í borginni segir mótmælin hafa orðið að óeirðum.

Donald Trump segir á Twitter að um „atvinnumótmælendur“ sé að ræða og að þeir séu hvattir áfram af fjölmiðlum. Þá segir hann mótmælin vera „mjög ósanngjörn“.

Lögreglan handtók fjölda mótmælenda samkvæmt AP fréttaveitunni, eftir að hluti þeirra hóf að kveikja í hlutum og eyðileggja. Mótmælin standa enn yfir og hefur komið til átaka á milli mótmælenda og lögreglu. Lögreglan hefur skotið gúmmíkúlum að mótmælendum.

Mótmæli fóru fram í borgum víða um Bandaríkin, hvort sem að kjósendur Trump voru þar í meirihluta eða í minnihluta. Fjöldi mótmælenda er þó talinn vera minni en fyrrinótt. Mótmælin voru friðsamleg að mestu leyti samkvæmt Reuters.

Mótmælendur óttast að kosning Trump muni draga úr mannréttindum í Bandaríkjunum.

Stuðningsmenn Trump segja mótmælendurna ekki virða lýðræðislegt kerfi Bandaríkjanna. Kerfi sem Trump og stuðningsmenn hans hafa verið að kvarta yfir í marga mánuði. Forsetinn verðandi hefur ítrekað haldið því fram að kerfið sé spillt, kosningasvindl séu allsráðandi og að kerfið sé misnotað.

Þrátt fyrir að enn sé ekki búið að telja öll atkvæði er líklegt að Hillary Clinton hafi í raun fengið fleiri atkvæði en Donald Trump.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×