Fótbolti

Kári og Viðar Örn tilnefndir sem leikmenn ársins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kári Árnason varð Svíþjóðarmeistari í annað sinn.
Kári Árnason varð Svíþjóðarmeistari í annað sinn. vísir/getty
Kári Árnason og Viðar Örn Kjartansson, landsliðsmenn í fótbolta, eru báðir tilnefndir sem leikmenn ársins í sínum stöðum í sænsku úrvalsdeildinni. Tilnefningarnar voru opinberaðar í dag en uppskeruhátíð deildarinnar fer fram 17. nóvember.

Kári er tilnefndur sem miðvörður ársins ásamt Emil Salomonsson hjá IFK Gautaborg og Andreas Johansson, leikmanni IFK Norrköping.

Víkingurinn átti stóran þátt í að Malmö endurheimti Svíþjóðarmeistaratitilinn af Norrköping en hann var varafyrirliði liðsins og leiddi það til sigurs í deildinni undir lokin.

Viðar Örn er tilnefndur sem framherji ársins ásamt tveimur leikmönnum IFK Norrköping; Sebastian Andersson og Christoffer Nyman.

Viðar Örn var seldur á miðri leiktíð en hann skoraði 14 mörk í 20 leikjum og fékk silfurskóinn þrátt fyrir að klára ekki tímabilið. Hann var með eins marks forskot á Nígeríumanninn John Owoeri fyrir lokaumferðina en hann skoraði fernu í lokaumferðinni og hirti gullskóinn af Viðari með 17 mörk.

Þrátt fyrir að vera markakóngur í deildinni er Owoeri ekki einu sinni tilnefndur sem framherji ársins. Nyman skoraði ekki nema níu mörk fyrir Norrköping og er tilnefndur ásamt liðsfélaga sínum sem skoraði 14 mörk eins og Viðar Örn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×