Erlent

Gervigreind hefur spáð úrslitum í síðustu þrennum kosningum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna. Nordicphotos/AFP
Gervigreindarforritið MogIA spáði rétt fyrir um úrslit bandarísku forsetakosninganna. Er það í þriðja skipti í röð sem MogIA hefur rétt fyrir sér en gervigreindin spáði einnig sigri Baracks Obama árin 2008 og 2016. Þá hefur spáin einnig reynst rétt hvað forval beggja flokka varðar.

MogIA byggir spá sína á virkni á Google, YouTube, Twitter og fleiri vefsíðum til þess að mæla ákefð stuðningsmanna forsetaframbjóðenda og fjölda þeirra.

„Á meðan flest forrit þurfa að líða fyrir skoðanir forritarans, á MogIA að læra af umhverfi sínu og þróa sínar eigin reglur,“ segir Sanjiv Rai, stofnandi indverska sprotafyrirtækisins Genic.ai sem þróaði MogIA, í samtali við CNBC.

Á meðal þeirrar tölfræði sem gervigreindin tók mið af við spá sína var hversu margir brugðust við færslum Trumps á Twitter og Facebook.

Bætti hann tölfræði Obama um 25 prósent á því sviði.

Rai telur MogIA verða nákvæmari með hverjum kosningum þar sem virkni á samfélagsmiðlum eykst mikið milli ára.

Þó segir hann að erfitt hafi verið fyrir gervigreindina að greina á milli jákvæðra og neikvæðra viðbragða við færslum frambjóðenda. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×