Erlent

Hvetja Clinton til að krefjast endurtalningar í þremur ríkjum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Hillary Clinton hlaut flest atkvæði í forsetakosningunum en tapaði þeim engu að síður.
Hillary Clinton hlaut flest atkvæði í forsetakosningunum en tapaði þeim engu að síður. Vísir/AFP
Þær gerast nú æ háværari raddirnar sem hvetja til þess að ítarlega verði farið yfir kosningaúrslitin í forsetakosningunum í byrjun mánaðarins þar sem Donald Trump fór með sigur af hólmi. Marga grunar að átt hafi verið við rafrænar kosningavélar í nokkrum ríkjum.

Breska blaðið Guardian greinir frá þessu í dag en um óformlegan hóp háskólamanna og aðgerðasinna er að ræða og hvetja þeir nú Hillary Clinton og hennar lið til að slást í lið með þeim og gera sömu kröfu.

Skýrsla um málið er í undibúningi en hópinn grunar að erlendir tölvuþrjótar hafi haft áhrif á úrslit í að minnsta kosti þremur ríkjum, Wisconsin, Pennsylvaníu og í Michigan.

Það sem hópurinn undrast er sú staðreynd að í þessum ríkjum, þar sem Clinton var yfirleitt spáð sigri en tapaði á endanum, er ósamræmi í úrslitum eftir því hvort kosið var með hefðbundnum kjörseðlum eða rafrænt, í viðkomandi sýslu.

Trump hafði yfirleitt betur, og það með nokkrum mun, í rafrænu kosningunum, en Hillary vann hins vegar flestar sýslurnar þar sem kjörseðlar eru enn notaðir.

Ekki eru þó allir sammála um alvarleika málsins og kannanasérfræðingurinn heimsfrægi, Nate Silver, segir að þeir sem aðhyllilist þessar kenningar gleymi að taka aðrar breytur með í reikninginn. Ef litið er til kynþáttar og menntunar kjósenda í viðkomandi sýslum þá hverfur þessi munur, sem í fyrstu virðist svo undarlegur, að sögn Silver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×