Menning

Maður er svo gríðarlega opinn á þessum andartökum

Magnús Guðmundsson skrifar
Úlfar Þormóðsson fagnar fimmtíu ára rithöfundarafmæli um þessar mundir en er þó lítið fyrir að horfa um öxl.
Úlfar Þormóðsson fagnar fimmtíu ára rithöfundarafmæli um þessar mundir en er þó lítið fyrir að horfa um öxl. Visir/GVA
Takk fyrir það. Mér finnst eiginlega hálf öld hljóma svakalegar. Þetta er náttúrulega asskoti langur tími,“ segir Úlfar Þormóðsson þegar honum er óskað til hamingju með fimmtíu ára rithöfundarafmælið sem hann á um þessar mundir. Það hefur nú gengið á ýmsu á þessum tíma en eins og Úlfar bendir á þá hefur hann nú líka fengist við sitthvað fleira á þessum tíma. „Ég var í margföldu brauðstriti með þessu alveg til 1993 en þetta hefur verið skemmtilegt.“

Aðspurður hvort það sé eitthvað sem standi upp úr á þessum ferli í huga Úlfars, þá stendur ekki á svari: „Ég er bara ekki þeirrar gerðar að ég líti baka og skoði hvað var nú eiginlega að gerast. Var eitthvað gott í þessu? Ég veit það ekki. Ég horfi ekkert þannig á það,“ segir Úlfar og hlær sínum hrjúfa hlátri. Úlfar hefur reyndar á stundum synt á móti straumi í veröld íslenskra bókmennta og hann þvertekur ekki fyrir það. „Nei, það er alveg rétt. Ég hef aldrei verið svona vinsældahöfundur, enda hvorki lagt mig fram við það eða sniðið mína texta að því að verða vinsæll og innundir. Reyndar ekki í neinu sem ég hef gert hvort sem það hefur verið tengt ritstörfum eða öðru.“

Fjórði maðurinn

Draumrof, nýjasta skáldsaga Úlfars kom út fyrir skömmu, en þar tekst höfundurinn meðal annars á við forvitnilegar spurningar um liðna tíð og hver á líf eða sögu. „Já, já, ég held að það sé nánast óhjákvæmilegt þegar maður er að fást við skriftir að velta þessu fyrir sér. Maður kíkir óhjákvæmilega á þessa línu,­ þessi mörk. Maður þekkir þau ekki alltaf endilega eða veit hvar þau liggja.“

En skyldi til að mynda Draumrof innihalda margt sem Úlfar hefur sótt í sitt líf? „Í bókinni segi ég eitthvað á þá leið að höfundur skrifar aldrei um sjálfan sig nema allavega að gera sig að öðrum. Hann segir allt satt af sjálfum sér. Vegna þess að hann er eins og aðrir, hræddur við sannleikann, og þá býr hann til eitthvað. Einhvern annan sem hann klínir sannleikanum á. Og það er það sem höfundurinn í þessari bók er einmitt að reyna að gera en það er þarna hakkari sem sér við honum. Veit að hann ætlar að gera þetta. Veit að hann ætlar að nota hann sem blóraböggul. Og er það ekki líka þannig í daglegu lífi ef þú ætlar að ljúga þig út úr hlutum? Þá kemur fjórði maðurinn og bankar í þig? Eða hvað?“

En hvað er fjórði maðurinn? Því fæst best svarað með þessu broti úr skáldsögu Úlfars:

Hérna verð ég bara að leggja lykkju vegna þess að núna, þegar ég skrifa þetta, eðlilega ekki þegar ég sagði það, fer um huga minn örsaga úr þínum fórum. Mér þykir hún skondin með tilliti til þess að fyrir allmörgum árum fór ég að nota orðin fjórði maðurinn í ákveðinni merkingu, gaf þeim hana, ef svo má að orði komast.

Og þetta skrifar þú:

Fjórði maðurinn

Það bar til um þessar mundir að þrír menn reru austur yfir fjörð í sólarlogni. Himinninn var undir og yfir og sjófuglar görguðu af hrifningu yfir spegilmynd sinni. Ferðin gekk áfallalaust. Þegar þeir lögðu að stóðu fjórir menn upp undan árum. Enginn þeirra kunni skýringu á þessu og aldrei vissu þeir hver þeirra var fjórði maðurinn.

„Og hver er hann, fjórði maðurinn?“ spurði lögreglukonan.

„Þetta er orðatiltæki,“ svaraði ég. „Notað þegar sá sem segir frá hefur ekki lyst á að nafngreina þann sem um er rætt, veit ekki hver hann er eða vill ekki vita það.“

Draumrof, bls. 55-56





Visir/GVA
Gleymskan hræðir

En er þá ákveðin hagræðing fólgin í því að skrifa? „Já þetta er svona tiltekt.“ Í Draumrofi er Alzheimer-sjúkdómurinn nokkuð fyrirferðarmikil og það vekur upp spurningar um það hvort það sé skyldleiki á milli þessara hugmynda og hvort skrifin séu byggð á óttanum við að gleyma? „Já, eru ekki andskoti margir einmitt hræddir við að gleyma. Það kemur yfir fólk, sérstaklega þegar það er orðið eldra og hefur átt einhverja nána sér sem sjúkdómurinn hefur gleypt, að í hvert skipti sem maður man ekki nafn á manni eða eitthvað álíka þá kemur þessi ótti og það er skiljanlegt.

Ég var staddur í bókabúð í síðustu viku og þar sat fyrir utan kunningi minn. Þegar ég gekk fram hjá þá sá ég að hann áttaði sig ekkert á þig hver ég var. Ég fór til hans, heilsaði honum og kynnti mig svona til öryggis. Þá ljómaði hann upp í smá stund. Síðan fór ég inn í búðina og hálfri mínútu síðar kom hann inn og sagði: „Ég er týndur, ég er týndur!“ Nei, nei, sagði búðarkonan og sagði honum hvar hann væri. Það hafði ekkert að segja. Hann vissi ekkert hvar hann var, hvar hann átti heima eða hver hann var. Hann svo sannarlega týndur. Þetta er maður sem var allt í lagi með þegar ég hitti hann hálfu ári fyrr. Fyrir tveimur árum var þessi maður virkandi í samfélaginu. Svo auðvitað eru fjandi margir smeykir við gleymskuna.“

En skyldi Úlfar óttast gleymskuna? „Nei, ekki svo. Ég var blaðamaður á Þjóðviljanum í mörg ár og þegar ég hætti því þá kunni ég orðið utanbókar eitt þúsund símanúmer eða svo. En þegar ég hætti að nota þau þá týndi ég þeim og þá áttaði ég mig á því að gleymskan kemur að hluta til, þegar maður er ekki að tala um sjúkdóma eins og Alzheimer, vegna vanrækslu eða af því að maður æfir sig ekki. En ég hef ekki verið mjög hræddur við gleymskuna sjálfur.“

Á milli draums og veruleika

Aðspurður hvort það séu skrifin sem halda huganum við í hans tilfelli þá segir Úlfar að eflaust sé það nú að einhverju leyti. „En þetta er líka?… ­ ég segi ekki áþján. En þetta er eitthvað sem þú losar þig endilega við eða hættir. Þegar blaðamenn hætta að skrifa í blað þá þurfa þeir samt að halda áfram að skrifa, þetta er komið inn í þá og það er ekkert hægt að losna frá þessu. Það er þarna krafa, sem þú veist ekkert endilega hvaðan kemur eða af hverju hún beinist að þér, en þú verður fyrir henni og kemst ekki undan henni.“

Titill skáldsögunnar Draumrof er sóttur í þjóðsagnalegt fyrirbæri. Fyrirbæri sem kannar hvað er mögulegt á mörkum svefns og vöku, draums og veruleika. Úlfar segir að það sé til aðeins ein íslensk þjóðsaga um þetta fyrirbæri og hún kemur við sögu í bókinni. „Þetta er sem sagt raunveruleg þjóðsaga,“ segir Úlfar og hlær. „Þessi hugmynd er unnin út frá þessari sögu og kannski líka einhverri leyndri ósk að við kíkjum á og rannsökum betur hluti sem við höfum hent frá okkur hingað til og afskrifað sem bábilju. En hvers vegna ekki að skoða þessa hluti betur og vita hvort okkur opnast einhverjar nýjar víddir til þess að njóta lífsins í?“

En skyldi það vera þjóðsagan eða tilhugsunin um hið mögulega sem hafi dregið Úlfar að þessu forvitnilega efni? „Ég er nú enn þá þeirrar gæfu aðnjótandi að sofna á hverjum sólarhring og vakna aftur ­enn þá. Og oftar en ekki þá eru það nú dáldið magnaðar stundir á meðan maður er að sofna og meðan maður er að vakna. Þegar meðvitundin er í fyrra tilfellinu að skríða frá manni og í hinu tilvikinu að koma að manni. Ef maður nær einhverri örlítilli einbeitingu á þessum stundum þá er þetta alveg magnaður tími. Maður er svo gríðarlega opinn fyrir hverju sem er.“

Þegar Úlfar er spurður um það hvort hann ætli að halda ótrauður áfram að skrifa nú í framhaldi af hálfrar aldrar höfundarafmælinu þá segist hann einfaldlega ekki komast undan slíku. „Já, ég hef svo sem ætlað að hætta. En hvenær verður maður tréhestur? Fyrir bæði sjálfum sér og öðrum. Þegar að því kemur þá hefur maður auðvitað ekki vit til þess að skynja það og það eru hryllileg örlög. Þannig að ég held bara áfram en vona að ég hætti í tíma.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×