Innlent

Stolinn Porsche og dýr málverk á samvisku íslensks síbrotamanns í Danmörku

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Maðurinn hefur tíu sinnum áður sætt refsingu vegna auðgunarbrota.
Maðurinn hefur tíu sinnum áður sætt refsingu vegna auðgunarbrota. Myndvinnsla/Garðar
Héraðsdómur Suðurlands dæmi Friðrik Ottó Friðriksson í sex mánaða fangelsi þann 1. Desember síðastliðinn fyrir kaup á þýfi í Danmörku á árunum 2012 og 2013. Friðrik Ottó hefur tíu sinnum áður sætt refsingu vegna auðgunarbrota.

Friðrik var dæmdur fyrir hylmingu með því að hafa frá 7. apríl 2012 til lok febrúar 2013 keypt af óþekktum aðila í Danmörku samtals átta málverk sem metin eru á 126.000 danskar krónur, eða rúmar tvær milljónir íslenskra króna. Málverkunum var stolið í innbroti í Næstved í Danmörku helgina 7.-8. apríl 2012.

Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa frá 18. janúar til lok febrúar 2013 keypt bifreið af gerðinni Porsche 911 Carrera frá óþekktum aðila. Bifreiðin var metin á 450 þúsund danskar krónur eða 7,2 milljónir íslenskra króna.Bifreiðinni var stolið í Holbæk í Danmörku á tímabilinu 18.-20. janúar 2013.

Bæði brotin voru framin í samverknaði við Anders Hansen og geymdu þeir bifreiðina og málverkin í gámi í Næstved í Danmörku. Í dómi héraðsdóms Suðurlands segir að Friðriki hafi verið ljóst, eða mátti vera ljóst að bifreiðin og málverkin voru þýfi.

Síðast var Friðrik Ottó dæmdur í þriggja mánaða fangelsi október 2010 fyrir þjófnað og fíkniefnabrot. Í maí árið 2004 var Friðrik dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir gróf ofbeldisbrot gegn fyrrum sambýliskonu sinni. Þá var hann sakfelldur fyrir að nauðga henni, ógna með hnífi og svipta hana frelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×