Samkvæmt Syrian Observatory for Human Rights hafa tugir verið teknir af lífi. Þar á meðal eru almennir borgarar, uppreisnar- og vígamenn og fjölskyldumeðlimir þeirra.
Jan Egeland, erindreki Sameinuðu þjóðanna, sagði fyrr í kvöld að ríkisstjórn Sýrlands og bandamenn hennar í Rússlandi bæru ábyrgð á öllum ódæðum sem stjórnarherinn og bandamenn þeirra fremja í borginni.
Borginni hefur í raun verið skipt upp í tvo hluta í fjögur ár. Stjórnarherinn hefur stjórnað vesturhluta hennar og uppreisnarmenn austurhlutanum. Stjórnarhernum tókst þó að brjótast í gegnum víglínurnar með hjálp sjálfboðaliða frá Íran og öðrum löndum og loftárásum Rússa.
Í vesturhluta borgarinnar, sem hefur ávalt verið undir stjórn stjórnvalda frá því að styrjöldin hófst í Sýrlandi, fara íbúar fagnandi um götur Aleppo. Þau fagna því að nú líti út fyrir að átökunum í borginni sé að ljúka.
Celebrating SAA progress in Aleppo. pic.twitter.com/wbOVkespnT
— Military Advisor (@miladvisor) December 12, 2016
Einn hjúkrunarfræðingur sem Guardian ræddi við sagði föður sinn og bróður hafa dáið í stórskotaliðsárásum með nokkurra klukkustunda millibili í dag. Hún sagðist ekki geta flúið þar sem stjórnarliðar líti á hana sem hryðjuverkamann fyrir að hafa sinnt störfum sínum á yfirráðasvæði uppreisnarmanna.
Í frétt Guardian segir að margir íbúar Aleppo sem blaðamenn hafi rætt við á undanförnum mánuðum hafi ekki svarað skilaboðum til þeirra í dag.